Suðurnesin svikin í samgönguáætlun

Ný samgönguáætlun hefur loks litið dagsins ljós. Þar kemur berlega í ljós að ríkisstjórnarflokkarnir eru sem fyrr áhugalausir um Suðurnesin. Ekki nóg með að helstu stofnanir ríkisins á svæðinu fái lægri fjárframlög í fjárlögum en aðrir landshlutar, heldur þurfa Suðurnesjamenn að búa við ókláraða tvöföldun Reykjanesbrautar næstu fimmtán árin. Um einbreiða hluta brautarinnar, frá Lónakoti í Hvassahrauni og að Hafnarfirði, fara um 19.000 bifreiðar á dag og er kaflinn sá fjölfarnasti á landinu. Samgönguráðherra sagði nýverið á Alþingi að umferðaröryggismál yrðu í hávegum höfð í áætluninni. Ekki verður séð að hann hafi miklar áhyggjur af þeim málum þegar kemur að Reykjanesbrautinni. Með sífellt fleiri ferðamönnum stefnir í ófremdarástand á þessum vegarkafla með tilheyrandi slysahættu. Nú þegar eru farnar að myndast tafir á veginum á álagstímum. Maður spyr sig því hvernig ástandið verði eftir fimmtán ár, loksins þegar stefnt er að ljúka tvöfölduninni.
 

Því miður lifir kjördæmapot enn góðu lífi í þessum mikilvæga málaflokki, þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað. Hvað réttlætir það til að mynda að ríkissjóður hafi borgað jarðgöng upp á tæplega þrjá milljarða fyrir einkafyrirtæki á Bakka við Húsavík, jarðgöng sem almenningur má ekki nota.

Suðurnesin sífellt látin mæta afgangi

Agaleysi ríkir í ríkisfjármálum á mörgum sviðum. Framúrkeyrslur eru regla fremur en undantekning, Vaðlaheiðargöng eru þar gott dæmi. Hægt hefði verið að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og rúmlega það fyrir þá fjármuni sem settir hafa verið í göngin, umfram það sem samþykkt hafði verið og áætlanir gerðu ráð fyrir.

Nýjasta útspil samgönguráðherra er að mögulega væri hægt að flýta framkvæmdum á Reykjanesbraut, ef Suðurnesjamenn borguðu sjálfir, með veggjaldi. Þarna talar stjórnmálamaðurinn sem sagði margsinnis fyrir kosningar að ekkert veggjald yrði á hans vakt. Mismununin gagnvart Suðunesjum er komin út fyrir allan þjófabálk.

Samgönguáætlunin er algerlega óásættanleg gagnvart Suðurnesjum. Öryggi og umferðarálag eiga að vera útgangspunktarnir þegar framkvæmdum er forgangsraðað. Reykjanesbrautin á að vera þar efst á blaði.  Það er óþolandi að Suðurnesin skuli sífellt vera látin mæta afgangi þegar ríkisvaldið er annars vegar. Við það verður ekki unað lengur.

Stopp, hingað og ekki lengra!

Birgir Þórarinsson
Höfundur er þingmaður Miðflokksins