Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Suðurkjördæmi: Kristján Pálsson biður um 2. sætið
Fimmtudagur 14. september 2006 kl. 10:15

Suðurkjördæmi: Kristján Pálsson biður um 2. sætið

Kristján Pálsson hefur eftir samráð við stuðningsfólk sitt í Suðurkjördæmi ákveðið að sækjast eftir  2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi fyrir alþingiskosningar næsta vor. Með því segist hann vilja leggja sitt af mörkum til að skapa flokknum fyrri stöðu og styrk. „Ég trúi því að reynsla mín af þjóðmálum muni nýtast flokknum til þess“, segir Kristján í samtali við Víkurfréttir.

Kristján var fyrst kosinn á Alþingi árið 1995 og sat þar í 8 ár en áður var hann í sveitarstjórnarmálum um árabil. Síðustu ár hefur Kristján unnið að málefnum ferðaþjónustunnar, sem formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Eins hefur hann starfað við eigin atvinnurekstur. Þar fyrir utan hefur hann stundað nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og verið formaður í UMFN.

- Hvað rekur þig til að fara í framboð?
„Mig langar í framboð og tel mig hafa reynslu og kraft til að leiða góð mál til lykta fyrir okkar svæði en ég haf gaman af því að láta hlutina gerast. Það er mjög áríðandi að mínu áliti að við Suðurnesjamenn eigum fulltrúa á þingi sem skilja hvað brennur heitast hér á svæðinu en í dag er enginn Sjálfstæðismaður sem býr hér á þingi fyrir Suðurnesin. Með þessu er ég ekki að gagnrýna sitjandi þingmenn, þeir gera eflaust eins og þeir geta en þeir búa ekki hér.

Þessi staða er mjög alvarleg fyrir svæðið að mínu mati og heldur okkur frá nauðsynlegri ákvarðanatöku sem varðar okkur mjög miklu. Vil ég nefna þar málefni vallarins, samgöngumál, atvinnumál og ferðamál. Við Suðurnesjamenn erum á mjög viðkvæmu tímabili núna og verðum að geta haft puttana í stjórnkerfinu á öllum stigum“.


 - Hver verða þín helstu baráttumál?
„Atvinnumálin brenna heitast í dag og augljóst að bregðast verður við með mjög ákveðnum hætti til að sú mikla uppbygging sem hér hefur ríkt haldi áfram.  Það verður að ljúka tvöföldun Reykjanesbrautarinnar í gegnum Hafnarfjörð og af fleiri samgöngumálum héðan af svæðinu vil ég nefna Suðurstrandaveg sem skiptir miklu máli fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu. Áframhaldandi uppbygging  háskólastigsins er mér einnig hugleikin. Annars eru öll mál fólksins á Suðurnesjum mín mál“, segir Kristján Pálsson í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024