Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja - SHSS
Guðrún Ösp Theodórsdóttir, varaformaður SHSS, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, og Ásta Björk Eiríksdóttir, formaður SHSS.
Mánudagur 18. mars 2019 kl. 10:03

Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja - SHSS

Styrktarfélag Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (SHSS) var stofnað árið 1975. SHSS er ópólitískt afl sem hefur um árabil beitt þrýstingi í þágu heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum auk þess að styrkja Heilbrigðisstofnun Suðurnesja með veglegum gjöfum. Á síðasta aðalfundi félagsins þann 14. maí 2018 var töluverð endurnýjun í stjórn félagsins. Ný stjórn hefur á fyrstu misserum í starfi lagt upp með að gera starf félagsins meira áberandi og aðgengilegt áhugasömum íbúum á Suðurnesjum. Stjórn félagsins finnur fyrir miklum meðbyr og vilja fólks til að láta í sér heyra varðandi þetta mikilvæga málefni; heilbrigðisþjónustu í heimabyggð. Merki félagsins er nýtt og var listilega hannað af Sylvíu Guðmundsdóttur, meðstjórnanda. Þá hefur verið stofnuð fésbókarsíða í nafni félagsins og opnað tölvupóstfangið: 
[email protected]. Við hvetjum áhugasama til að líka við síðu félagsins og tökum á móti góðum hugmyndum og ábendingum í tölvupósti.
 
Meginstoðin í styrkjasöfnun félagsins hefur í gegnum árin verið sala á minningarkortum sem seld eru í apótekinu við Tjarnargötu, Reykjanesapóteki og í afgreiðslu HSS. Um þann þátt heldur fyrrum formaður félagsins, Þorbjörg Pálsdóttir, og kann stjórnin henni miklar þakkir fyrir. Stjórnin hefur á starfsárinu leitast við að fjölga þeim leiðum sem almenningi býðst til að styrkja félagið. Liður í því var að skrá SHSS sem góðgerðarfélag í Reykjavíkurmaraþoninu. Við hvetjum haupara til að hlaupa til styrktar félaginu í Reykjavíkurmaraþoninu nú í sumar og alla Suðurnesjamenn til að heita á þá sem það gera. Allur ágóði rennur til styrktar HSS í formi gjafa en þann 5. júní síðastliðinn afhenti SHSS einmitt D-deild HSS svokallaðar skutlur, sem auðvelda starfsfólki að aðstoða sjúklinga að ferðast á milli herbergja.
 
Síðastliðið haust fóru undirritaðar á fund heilbrigðisráðherra. Fundurinn var gagnlegur og horfum við bjartsýnar fram á veginn. Við Suðurnesjamenn þurfum að nýta þá athygli sem nú beinist að svæðinu, vegna fjölgunar íbúa og ferðamannastraums, og ná fram nauðsynlegum umbótum á heilbrigðisþjónustunni. Afar áhugavert verður að fylgjast með hvernig nýr forstjóri tekst á við það mikilvæga verkefni og við í stjórn SHSS bíðum spennt eftir tækifæri til að ræða við hann áherslur og hugmyndir til framtíðar.
Þann 21. mars næstkomandi verður aðalfundur SHSS haldinn á sal MSS í Krossmóa og hvetjum við alla til að mæta. Fundurinn hefst kl. 20:00.
 
Fyrir hönd stjórnar,
Ásta Björk Eiríksdóttir, 
formaður SHSS
.
Guðrún Ösp Theodórsdóttir, 
varaformaður SHSS.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024