Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Styrkjum raforkudreifikerfin strax!
Föstudagur 23. febrúar 2024 kl. 06:01

Styrkjum raforkudreifikerfin strax!

Þegar aðalæð hitaveitunnar á Suðurnesjum fer í sundur liggur beinast við að nota rafmagn til að halda hita í íbúðum vel yfir frostmarki. Í heitavatnsleysinu um daginn skorti mjög raforku. Þar var flöskuhálsinn ekki Suðurnesjalína 1, eins og Landsnet og Guðlaugur Þór fullyrtu heldur afkastageta dreifikerfa í íbúðahverfum.

Ef 10.000 íbúðir á Suðurnesjum nota ekki öllu meira en 3 kílóvött (kW) hver, eins og almannavarnir mæltust til um daginn, þá gera það samtals 30 megavött (MW).  Virkjanirnar á Suðurnesjum geta hæglega framleitt 150 MW, og gamla, góða Suðurnesjalína 1 (sem venjulega flytur raforku frá Suðurnesjum til Hafnarfjarðar) getur flutt önnur 150 MW innanfrá til okkar, ef á þarf að halda. Þannig geta 300 MW verið á boðstólum á Suðurnesjum og 30 MW því aðeins 10% af þeirri raforku sem hægt væri að skaffa hér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dreifikerfi raforku í íbúðahverfum eru veiki hlekkurinn í öryggismálum okkar á Suðurnesjum. Mikil orka hefur farið í þras um háspennulínur, en flöskuhálsinn er bara alls ekki þar!  Við værum engu bættari nú með risastóra Suðurnesjalínu tvö!  En ef dreifikerfið réði við 6 kW notkun á hverju heimili, sem gerir alls 10.000 x 6 = 60.000 KW eða 60 MW (megavött), þá væri sæmilega hlýtt í öllum húsum og nóg rafmagn til annara nota, þó heita vatnið færi af. Þá væru heimilin að nota 20% af þeirri raforku sem jarðhitavirkjanirnar á Reykjanesi og í Svartsengi framleiða og Suðurnesjalína 1 gæti í neyðartilviki flutt hingað. Aðeins 20%! Þetta eru sláandi tölur!

https://www.landsnet.is/kerfisstjornun/aflflutningur/  Á vef Landsnets, á þessari slóð, sást um daginn að þrátt fyrir rafmagnsskort í íbúðum okkar í heitavatnsleysinu var raforka allan tímann að streyma eftir Suðurnesjalínu 1 INN á höfuðborgarsvæðið, FRÁ Suðurnesjum!  Suðurnesjavirkjanirnar eru drjúgar, gera meira en að fullnægja raforkuþörf hér. Blaður Landsnets  og Guðlaugs Þórs um að Suðurnesjalína II myndi bjarga einhverju er marklaus fullyrðing.  Leiðinlegt að ráðherra og fyrirtæki í eigu okkar allra skuli ítrekað segja ósatt -  í besta falli segja hálfan sannleikann.

Við erum hér að tala um brýnt öryggismál!  Ef heita vatnið fer aftur - jafnvel um lengri tíma, þarf að styrkja dreifikerfi rafmagns um íbúabyggð Suðurnesja – og það strax.  Því þarf að yfirfara og endurhugsa dreifikerfið með það í huga að það geti flutt meiri orku í neyð. Það á sérstaklega við um nýju hverfin. Það mætti t.d. gera með varatengingu (hringtengingu) milli svæða.  Í þessu efni skiptir ný Suðurnesjalína II engu máli.

Þorvaldur Örn Árnason, íbúi í Vogum.
Örn Þorvaldsson, fyrrverandi starfsmaður Landsnets.