Styðjum uppbyggingu í Helguvík
Í síðustu Víkurfréttum fer Dagný Alda Steinsdóttir mikinn og finnur nýjum iðjuverum allt til foráttu. Hún lætur eins og þeir sem voru mest á móti álveri Alcoa á Reyðarfirði á sínum tíma. Þar átti allur gróður að hverfa innan nokkurra mánaða og á góðviðrisdögum átti fjörðurinn að hverfa sjónum manna vegna mengunar.
Ekkert af ofangreindu hefur ræst. Sjálfur hef ég oft verið á skíðum í brekkum Oddsskarðs á austfirskum góðviðrisdögum og það vottar ekki fyrir mengun frá iðjuverinu þegar horft er yfir fjörðinn.
Á einum stað heldur Dagný Alda því fram að konur hafi lítið að sækja í þessum nýju iðjuverum. Það má benda henni á að rétt um 30% starfsmanna Fjarðaáls eru nú konur og þeim fer fjölgandi. Meðallaun í álverum og væntanlega í kísilverunum nýju eru og verða nokkuð há, mun hærri en laun greidd til starfsmanna á Keflavíkurflugvelli. Þetta þýðir aftur að lífskjör bæjarbúa batna á allan hátt, þar sem útsvarstekjur bæjarsjóðs hækka og margaukin umferð um Helguvíkurhöfn gjörbreytir rekstri hafnarsjóðs.
Á öðrum stað ræðir Dagný um fnykinn frá fiskimjölsverksmiðju SVN í Helguvík síðastliðið sumar. Segir að hann hafi legið yfir Heiðarhverfinu dögum saman. Sjálfur bý ég í Heiðarhverfinu og fann enga sérstaka lykt í sumar, nema þá ferska sjávarlykt þegar norðangarrinn blés. Því miður er það svo að sumir finna allstaðar fýlu.
Ég á þá ósk heitasta að bæjarbúar styðji eindregið þá ákvörðun bæjaryfirvalda um að heimila byggingu iðjuveranna. Með því mun Reykjanesbær dafna enn frekar og þá mun fasteignaverð hækka en ekki lækka.
Þórleifur Ólafsson.