Styðjum Ragnheiði Elínu í 1. sætið
Kæru sjálfstæðismenn á Suðurnesjum.
Krafan um breytingar hefur verið hávær undanfarið í ljósi breyttra aðstæðna í efnahagslífi okkar Íslendinga. Þessi krafa er skiljanleg en hún getur ekki aðeins snúist um persónur heldur einnig um nýjar áherslur og breytt vinnubrögð. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn endurreisnar en hvers konar endurreisn viljum við sjá er spurning sem við þurfum að velta vel fyrir okkur.
Mikilvægt er að manneskjan sem leiðir lista flokksins í kjördæminu hafi víðtæka þekkingu, kraft og dugnað til að horfa fram á veginn og viti nákvæmlega hvert beri að stefna. Eins skiptir það okkur kjósendur miklu máli að manneskjan njóti trausts og trúverðugleika í samfélaginu og vinni af heilindum með okkur kjósendum. Endurreisnin verður að byggjast á samfélagsmynd fólksins í landinu og þess vegna er mikilvægara nú en nokkru sinni að leiðtoginn okkar í kjördæminu hlusti vel og taki tillit til okkar áherslna og skoðana. Leiðtoginn okkar þarf einnig að vera mikill baráttumaður, því eins og við þekkjum hefur oft reynst erfitt fyrir aðra að skilja þarfir okkar Suðurnesjamanna. Við þurfum því leiðtoga sem þorir að berjast fyrir okkur og tekur ábyrgð sem traustur fyrirliði þingmannahóps okkar í kjördæminu, því sameinuð sem liðsheild getum við auðveldlega náð okkar markmiðum.
Ragnheiður Elín hefur þessa kosti og hefur sýnt það í verki. Hún hefur víðtæka reynslu, bæði frá námi sínu og starfi hér og eins í Bandaríkjunum en hún starfaði m.a. sem aðstoðarmaður ráðherra í áratug og þekkir því stjórnsýsluna vel. Eins hefur hún tveggja ára reynslu af störfum sem alþingismaður og hefur staðið sig vel í veigamiklum nefndum Alþingis.
Baráttumaður er hún mikill, enda þekkir hún baráttuandann úr íþróttunum hér á Suðurnesjum eftir að hafa spilað og keppt í handbolta fyrir Keflavík hér á árum áður. Úr íþróttunum læra menn einnig að vinna saman sem liðsheild og það er verk fyrirliðans að leiða þá liðsheild til árangurs. Hún sýndi vel baráttuanda sinn í pólitíkinni þegar hún steig fram og barðist gegn þeim sem reyndu að gera lítið úr uppbyggingarstarfinu á Vallarheiði og var hluti af þeirri liðsheild sem vann að málefnum þess. Sem þingmaður og leiðtogi okkar hér í kjördæminu mun hún án efa sýna þennan sama kraft og baráttuanda í þeim brýnu verkefnunum sem framundan eru.
Við Sjálfstæðismenn göngum til prófkjörs laugardaginn 14. mars. Prófkjör er lýðræðisleg leið flokksmanna til að velja sér þá frambjóðendur sem þeir treysta best til að vinna að málefnum samfélagsins.
Ragnheiður Elín hefur sýnt það og sannað að hún sé tilbúin að leiða lista okkar í Suðurkjördæmi. Hún hefur mikinn metnað til að vinna að framgangi þeirra mála sem skipta okkur Suðurnesjamenn hvað mestu máli og treystir okkur til að vinna með sér að málefnum svæðisins.
Fjölmennum á kjörstað nk. laugardag og styðjum Ragnheiði Elínu Árnadóttur, okkar mann í 1. sætið!
Guðný Ester Aðalsteinsdóttir
Haraldur Helgason
Runólfur Þór Sanders
Halldór Leví Björnsson