Styðjum öfluga Suðurnesjakonu á þing!
Silja Dögg Gunnarsdóttir gefur kost á sér í 2. sæti lista Framsóknarflokknum í Suðurkjördæmi. Okkur Suðurnesjamönnum hefur oft skort öfluga málsvara á Alþingi.
Við þekkjum Silju Dögg vel af störfum hennar fyrir Framsóknarfélag Reykjanesbæjar. Hún hefur verið viðloðandi félagið í mörg ár en setið í stjórn félagsins þar sl. 2 ár og átt þátt í því að efla félagið til muna. Silja Dögg er nú varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og hefur sýnt hversu dugleg hún er að koma málum áfram sem hún hefur trú á.
Silja Dögg er sagnfræðingur og hefur komið víða við í atvinnulífinu í gegnum tíðina. Síðastliðin 5 ár hefur hún starfað við innleiðingu skjalastjórnunar hjá HS Orku og sem aðstoðarmaður framkvæmdastjórnar.
Silja Dögg hefur sýnt það og sannað að hún er óhrædd við að takast á við stór verkefni. Hún heldur ótrauð áfram og á auðvelt með að fá fólk með sér í lið. Hún er ósérhlífin, jákvæð, heiðarleg og fordómalaus. Hún leysir málin með skynsemi, ekki öfgum. Við viljum lausnamiðaðan fulltrúa sem sér tækifæri, ekki vandamál. Þess vegna ætlum við að kjósa Silju Dögg.
Kæra Framsóknarfólk. Við hvetjum ykkur sem hafið atkvæðisrétt til að greiða öflugri konu atkvæði þitt á kjördæmisþingi Framsóknar sem fram fer á Selfossi laugardaginn 12. Janúar nk.
Þingið hefst stundvíslega kl. 12.
Við höfum trú á að Silja Dögg verði öflug þingkona fyrir Suðurnesin sem og allt Ísland.
Agnes Ásta Woodhead Garði
Gísli Stefánsson Vogum
Ólöf Sveinsdóttir Reykjanesbæ
Valgerður Guðbjörnsdóttir Sandgerði