Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Styðjum björgunarsveitirnar, þær styðja okkur!
Föstudagur 29. desember 2006 kl. 14:52

Styðjum björgunarsveitirnar, þær styðja okkur!

Nú er að koma að uppáhaldstíma ársins hjá mér, gamlárskvöldi með tilheyrandi flugeldasýningum. Ég hef frá blautu barnsbeini verið mikill áhugamaður um flugelda og ekki skemmir fyrir að eiga þrjá syni með sömu bakteríu. Einn af sonum mínum hefur einmitt starfað nú í allnokkur ár hjá Björgunarsveitinni Suðurnes, hvort sem það er að þakka brennandi flugeldaáhuga á heimilinu eða einhverju öðru. Undanfarið hef ég einmitt orðið mikið var við annríki björgunarsveitanna þegar sonur minn hefur hlaupið í útköll um miðjar nætur. Það er því engin spurning fyrir mig hvar ég kaupi flugeldana í ár.
Ég tel mig eiga mikilla hagsmuna að gæta í að styrkja björnungarsveitirnar, ekki einungis vegna sonar míns, heldur líka vegna þess að sjálfur hef ég notið þjónustu þeirra. Ég er þeirrar skoðunar að við séum öll hagsmunaaðilar þegar kemur að björgunarsveitunum. Öll þekkjum við einhvern sem lent hefur í slysum, sjávarháska eða týnst á fjöllum. Öll eigum við líka mikið undir þegar óveður skella á og björgunarsveitir aðstoða við að bjarga eignum og hefta fjúkandi hluti sem geta valdið tjóni á mönnum og eignum. Það er þessvegna mikilvægt að sveitirnar séu eins vel tækjum búnar og mögulegt er, því þannig ná þær best að sinna hlutverki sínu.


Ég lít svo á að flugeldasalan sé til að styrkja gott málefni. Þessvegna styð ég flugeldasölu björgunarsveitanna heilshugar. Ég er hef líka mikinn áhuga á íþróttum og geri engar athugasemdir við að íþróttahreyfingin sé á þessum markaði, enda verði það til að styrkja starf yngri flokkanna.


Hins vegar er ég mjög andvígur því að einkstakir aðilar ryðjist inn á þennan markað einungis með eigin hagsmuni í huga og von um skjótan gróða. Slíkt er engum til hagsbóta öðrum en þeim sjálfum. Færa má rök fyrir því að þetta sé beinlínis slæmt ef það verður til þess að ræna björgunarsveitirnar og íþróttahreyfingunni tekjum.


Með þessu er ég ekki að segja að ég sé á móti samkeppni og frjálsum markaði. Samkeppnin er tryggð með veru íþróttahreyfingarinnar og björgunarsveitanna á markaðnum. Vissulega er hverjum sem er frjálst að sækja á þennan markað, en í mínum augum á þessi markaður að vera eyrnamerktur góðum málefnum. Stöndum öll saman að því að styðja þessi góðu málefni en sniðganga aðra.
Ég vil að lokum óska Suðurnesjamönnum gleðilegs árs og góðs flugeldafæris.

Einar Þórarinn Magnússon skipstjóri og útgerðarmaður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024