Styðjum Árna í stólinn

Á þessu nýja ári verða bæjar- og sveitarstjórnarkosningar þann 25. maí n.k. eins og flestum er kunnugt um.
Sú breyting verður hjá lista sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ að Ellert Eiríksson bæjarstjóri, Jónína Sanders formaður bæjarráðs og
Björk Guðjónsdóttir formaður framkvæmda- og tækniráðs gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa. Er þetta mikil breyting því t.d. hefur Ellert Eiríksson verið bæjarstjóri undanfarin 12 ár.
Bæjarbúar hafa spurt mig mikið í haust „hvaða mann Sjálfstæðisflokkurinn ætli að hafa fyrir bæjarstjóra“, eins og þeir orða það, segir Þorsteinn Erlingsson, bæjarfulltrúi í grein sinni.Bæjarbúar hafa viljað fá mann sem er traustur og með reynslu.
Forystumenn sjálfstæðisflokksins ákváðu þegar nafn Árna Sigfússonar kom upp að athuga hvort hann væri til í að vera bæjarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Var það svo samþykkt einróma á fulltrúaráðsfundi fimmtudaginn 10. janúar s.l. að hann yrði bæjarstjóraefni sjálfstæðisflokksins og tæki fyrsta sæti á listanum. Einnig var ákveðið að stillt yrði upp á listann.
Einhverjir hafa spurt hvers vegna ekki hafi verið fenginn heimamaður til að vera bæjarstjóraefni. Mér finnst algjört aukaatriði hvar menn eru fæddir, svo lengi sem þeir eru reiðubúnir að vinna vel fyrir Reykjanesbæ. Auðvitað eru til margir hæfir einstaklingar í Reykjanesbæ, í góðum störfum með góð laun og hafa því ekki áhuga á að sækjast eftir þessu viðamikla starfi. Sumir þeirra taka ekki í mál að fara úr slíkum störfum í þá áhættu sem því fylgir að ganga til kosninga á 4 ára fresti. Einnig reka menn sín eigin fyrirtæki eða eru í námi og eru því dýrmætir fyrir bæinn þar sem þeir eru.
Það sem er ánægjulegt við þetta er að þessi öflugi hópur bæjarfulltrúa, athafnafólks og annarra vill styðja við bakið á Árna til góðra verka fyrir bæinn og þannig nýtast hæfileikar okkar hvers á sínu sviði. Þessi ákvörðun hefur valdið miklum titringi hjá þeim sem telja sig sérstaka andstæðinga okkar sjálfstæðismanna. Það er góðs viti.Fyrst væri það áhyggjuefni ef slíkir menn segðu ekkert. En hvernig þeir velja að fjalla um þetta mun aðeins lýsa þeirra innri manni - verða þeir málefnalegir eða leggjast þeir í skítkast? Svar við því er nú að koma í ljós. Ég vona að sjálfstæðisfólk beri gæfu til að svara ekki til baka með slíkum hætti.
Þá má nefna að bæjarstjórinn í Grindavík er frá Húsavík, bæjarstjórinn í Sandgerði er Njarðvíkingur, sveitarstjórinn í Garðinum er frá Vestmannaeyjum, sveitarstjórinn í Vogum er Keflvíkingur og Steindór Sigurðsson sem sat í
bæjarstjórn Njarðvíkur síðan Reykjanesbæjar er nú sveitarstjóri í Öxarfirði. Ellert Eiríksson núverandi bæjarstjóri var í 17 ár bæjarverkstjóri í Keflavík, síðan í
8 ár sveitarstjóri í Gerðarhreppi, árið 1990 varð hann svo bæjarstjóri í Keflavík sem nú heitir Reykjanesbær.
Ég þekki Árna Sigfússon og tel hann vera mjög hæfan mann, vel menntaðann og með góða þekkingu á sveitarstjórnar- og atvinnumálum.
Ég vil biðja bæjarbúa að skoða þennan nýja forystumann með jákvæðu hugarfari, styðja okkur sjálfstæðismenn í kosningunum í vor og gera Árna Sigfússon að næsta bæjarstjóra í Reykjanesbæ.
Þorsteinn Erlingsson
bæjarfulltrúi
sjálfstæðismanna
Reykjanesbæ