Stuðningur við jaðarsetta hópa
Ragnhildur L. Guðmundsdóttir, oddviti Pírata og óháðra í Reykjanesbæ.
Þegar unnið er með fólk og jafnvel inni á þeirra heimilum er mikilvægt að starfsfólk finni hversu mikils virði það er og fái þjálfun í mannlegum samskiptum. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Það er einnig hverjum manni hollt að líta í eigin barm og skoða hvort maður sé ekki sjálfur með bjálkann í eigin auga þegar flís náungans er skoðuð. Mér fannst a.m.k. rosaleg sú naflaskoðun sem ég þurfti sjálf að fara í en ég hefði aldrei trúað því að óreyndu að ég væri sjálf með fordóma gagnvart örorku enda sjálf 60% öryrki eftir vinnuslys sextán ára gömul.
Ég, undirrituð, gerði eigindlega MA-rannsókn árið 2015 þar sem ég skoðaði hvernig öryrkjar upplifðu félagslega kerfið og sjúkratryggingar Íslands (TR) Það kemur og fram í viðtölunum hversu mikilvægt það er að allar stofnanir samfélagsins, skólakerfið og heilbrigðiskerfið vinni saman að heill og hamingju einstaklinganna. Sú stífni sem virðist endurspeglast í samskiptum við stofnanir hlýtur að vera eitthvað sem ráða þarf bót á enda held ég að kerfið hafi átt að þjónusta fólk en ekki snúast upp í andhverfu sína. Það þarf að koma til hvatning frá kerfinu til fólksins til þess að bæta stöðu sína en ekki ætti að vera ætlunin að refsa fólki fyrir sjálfsbjargarviðleitni enda hlýtur það að verða hagur alls samfélagsins að hjálpa sem flestum að komast út á vinnumarkað, hjálpa fólki til þess að hjálpa sér sjálft og verða fullgildir samfélagsþegnar. Atvinnuleysi og jafnvel í framhaldi þess, örorka fólks hefur í för með sér töluvert minni fjárráð, fólk sem fær bætur til þess að komast af hefur ekki efni á því að stunda nám í framhaldsskóla, hefur jafnvel ekki tök á námslánum þar af leiðir er þessi staða fólks hindrun þegar kemur að því að reyna að bæta stöðu sína með menntun við hæfi. Þeir sem eru með geðrænan vanda og fá endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins eru oft taldir skorta getu til að taka eigin ákvarðanir eða taka „rétta“ ákvörðun að mati sérfræðinga. Skjólstæðingar fá því ekki að taka þátt í ákvörðunum um eigin meðferð, fá kannski að ákveða matseðil sinn en ekki meðferðarforminu. Þessi afstaða sérfræðinga heldur skjólstæðingunum í enn lengra sambandi við sérfræðingana/stofnanir þar sem þeir læra ekki færni til að taka eigin ákvarðanir. Það getur enginn orðið sjálfstæður ef hann öðlast ekki færni til að taka mikilvægar ákvarðanir er snerta líf þeirra sjálfra. Merkingarbært val er ekki aðeins val um „hamborgara eða pylsur“ eða „heita pottinn eða sund“. Ef skjólstæðingurinn vill salat eða fá að fara á bókasafn er hann óheppinn, hefur ekki val um annað en það sem sérfræðingarnir bjóða. Í notendastýrðri þjónustu þar sem valdefling er lykilatriði fær skjólstæðingurinn einmitt það val að taka ákvörðun sem hann vill og hentar honum, þarf ekki að taka mið af óskum sérfræðinganna.
Von er mikilvægur þáttur í skilgreiningu á valdeflingu. Sá sem er vongóður trúir á mögulegar breytingar í framtíðinni og eigin árangur, án vonar getur það virst tilgangslaust að reyna. Skjólstæðingar sem tjá reiði sína eru oft greindir af sérfræðingum, að vera „í kvíðakasti“ eða „stjórnlausir“. Jafnvel þegar reiði er lögmæt og myndi teljast svo hjá „heilbrigðum“ einstaklingi og er enn eitt dæmið um það hvernig jákvæð gæði verður neikvætt þegar maður greinist með geðrænan vanda. Skjólstæðingar þurfa tækifæri til að læra um reiði, til að tjá hana á öruggan hátt og til að viðurkenna takmarkanir sínar. Mikilvægur þáttur í skilgreiningu okkar er að tilheyra hóp. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að valdefling er ferli sem hefur að gera með að upplifa tengsl við annað fólk. Það er ekki aðeins einn sem kemur og „lagar allt“ og hverfur svo á braut heldur er það sameiginlegt verkefni hópsins. Valdefling er meira en bara „tilfinning“ eða „líðan“, hún er undanfari breytinga. Þegar skjólstæðingurinn upplifir meira vald, finnst honum eða henni vera meira öryggi og upplifir meiri færni. Þessi staða leiðir til aukinnar getu til að stjórna eigin lífi, sem leiðir til enn meiri og betri sjálfsmyndar.
Við höfum úrræði fyrir takmarkaðan hóp fólks með geðrænan vanda sem er Björgin en sá staður hentar ekki öllum þeim einstaklingum sem þurfa sérstakt úrræði í endurhæfingu sinn og til þess að losna úr félagslegri einangrun sem það hefur sett sig í vegna úrræðaleysis í heilbrigðiskerfinu utan höfuðborgarinnar, við erum EKKI að sinna öllum sem þurfa sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem gæti þó verið veitt af þverfaglegu teymi heilbrigðisstofnunar og félagsþjónustu.
Ég tel að við eigum að kortleggja stöðu þessa hóps, hvar liggja styrkleikar þess og er mögulegt að virkja þá og styðja til náms þar sem hæfnin og getan er til staðar.
Við í Pírötum og óháðum viljum að þessi kerfi tali saman og kortleggi þarfir þessa hóps og klæðskerasníði úrræði sem hentar fólkinu því það er jú fólkið sem á að nýta þjónustuna en ekki sá sem skipuleggur hana þ.e. sérfræðingurinn.
Þú skiptir máli!