Stuðningur og vinna gegn fordómum
Björgin- Geðræktarmiðstöð Suðurnesja
Björgin er úrræði fyrir fólk með geðheilsuvanda. Markmið er að styðja fólk til sjálfshjálpar og vinna gegn fordómum. Þjónustan er þríþætt; athvarf, endurhæfing og eftirfylgd. Lögð er áhersla á notalegt og heimilislegt umhverfi þar sem félagar njóta samvista hvers annars og starfsfólks. Boðið er upp á hádegisverð og kaffi gegn vægu gjaldi. Skipulagðar samverustundir og húsfundir eru haldnir reglulega. Fjölbreytt iðja er í boði svo sem myndlist, gifs, tréverk, föndur, hannyrðir og fleira. Einnig er aðgangur að tölvu með nettengingu, slökunarsal, spilum, poolborði.
Endurhæfing í Björginni miðar að því að efla færni og lífsgæði. Hún felur meðal annars í sér fimm vikna námskeið, Hugur og heilsa, sem kennt er fjóra daga vikunnar. Námskeið á haustönn byrjar 16 september. Boðið er upp á námskeið í hugrænni atferlismeðferð við þunglyndi og kvíða (HAM) og er það kennt einu sinni í viku í sex vikur. Námskeiðið hefst 29 október.
Boðið er upp á eftirfylgd sem tekur mið af þörfum hvers og eins. Eftirfylgd getur verið í formi viðtala, símhringinga, fræðslu og annars stuðnings.
Starfsfólk veitir persónulega ráðgjöf og einstaklingsmiðaða þjónustu. Einnig er aðgengi að geðlækni. Tilvísun frá fagaðila er ekki nauðsynleg til að kynna sér eða nýta starfsemi Bjargarinnar. Starfsemin miðar að því að auka virkni, sjálfstraust og færni.
Hafdís Guðmundsdóttir félagsráðgjafi/forstöðumaður
Hulda Sævarsdóttir sálfræðingur
Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir iðjuþjálfi
www.bjorgin.is einnig er hægt að finna okkur á Facebook Björgin Geðræktarmiðstöð