Stríðsminjar eða gamalt drasl?
Það vakti athygli mína núna á dögunum að það er búið að loka veginum að Rockville. Það er nefnilega búið að leggja nánast allar þær byggingar í rúst sem almenningur var búin að leggja allverulegan kostnað og vinnu í eða u.þ.b 100 milljónir. Ég dáist af allri þeirri vinnu sem Guðmundur Jónsson forstöðumaður Byrgisins og hans fólk vann að til að koma þaki yfir starfsemi sína....En..,skyndileg var öllu lokað! Skömmu eftir lokun Byrgisins kom góður alþingismaður með þá tillögu að við Suðurnesjamenn ættum að opna þarna stríðsminjasafn eða jafnvel fangelsi. Hvað varð um þessar tillögur? Nú...,svo var það ein sagan að það ætti að nota Rockville sem vinnubúðir fyrir Helguvík á meðan á framkvæmdum stæði þar.
Hvað verður um þessar byggingar í náinni framtíð ?
Úr Víkurfréttum
18.6.2003 09:10:57
Vill að Rockville verði rifið
Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins hefur óskað eftir því við Bandaríkjamenn að ratsjárstöðin Rockville á Miðnesheiði verði rifin. Að sögn Sturlu Sigurjónssonar, skrifstofustjóra varnarmálaskrifstofu, er ekki talið fullvíst hvort asbest hafi verið notað í byggingu hússins. Asbest leggst á öndunarfærin og getur við innöndun valdið lungnasjúkdómum eða krabbameini, en það gerist aðeins þegar efninu er raskað og trefjarnar fara á flug í andrúmsloftinu.
,,Ekki hefur verið úr því skorið hvort það kunni að vera asbest í Rockville eins og kom í ljós á ratsjárstöðinni við Stokksnes, en þetta eru byggingar frá svipuðum tíma. Við viljum að byggingin verði rifin og svæðið hreinsað svo ekki hljótist skaði af henni ef hún fer í niðurníðslu," segir Sturla.
Frá 1999 var rekið kristilega meðferðarheimilið Byrgið í Rockville, en starfsemin flutti þaðan í byrjun júní. Guðmundur Jónsson, forstöðumaður Byrgisins, segir asbest-hættuna þar ekki mikla. ,,Það er kannski asbest á eins metra svæði í kringum ratsjárkúlurnar. Húsið hefur verið tekið í gegn áður og enginn dó," segir hann og kveðst ekki skilja hvers vegna Byrginu var vísað út. Meðferðarheimilið hefur nú aðsetur í Efri-Brú á Grímsnesi, fæðingarstað Tómasar Guðmundssonar skálds, en Guðmundur segir híbýlin þar of lítil.
- Við munum flest eftir skermunum á Stafnesi (Dye 5) þetta voru afar tignarleg mannvirki. Það var smá ágreiningur hvort ætti að rífa þessar byggingar eða ekki, er okkur ekki sama í dag?
Á Hornafirði vildu sjómenn ekki láta taka þessa skerma niður þar sem þeir voru orðnir partur af staðnum og kennileiti fyrir sjófarendur, en þeir sem áttu þessi mannvirki tóku ákvörðun um að þau yrðu fjarlægð og það var gert fyrir nokkrum árum.
Þegar við erum að koma úr Reykjavík og komin framhjá Grindavíkur-afleggjara blasir við okkur á vinstri hönd bygging sem vantar á þakið, hvaða hús er þetta? Jú þetta er gömul bygging frá 1940 eða 1950, þetta sem flest allir kalla gamla Sjúkrahúsið. Ég las grein í Suðurnesjafréttum sem mér þótti afar merkileg, þetta var grein sem Friðþór Eydal upplýsingafulltrúi varnarliðsins skrifaði fyrir nokkrum árum. Í þessari góðu grein fór Friðþór mjög náið út í sögu þessara byggingar. Þetta var nefnilega ekki sjúkrahús heldur fjarskiptastöð eða útvarpsstöð varnaliðsins. United Airline var verktaki þessarar stöðvar og er þetta svæði kallað(Camp Brodstreet).
Þar sem Sjúkrahúsið var, (það mun hafa verið staðsett nær Stapanum) en er búið að rífa núna og ekki til miklar heimildir um þann stað, voru jafnframt um það bil 30 braggar sem brunnu í stormi með miklu hvassviðri í kringum 1950 og var það svæði kallað Camp Daly.
Svo er það spurning um bygginguna hjá Seltjörn, er hún stríðsminjar? Viljum við halda í hana sem sögulegar minjar? Hver á hana núna?
Ég man eftir að hafa séð beiðni til byggingarnefndar í Reykjanesbæ frá einstaklingi eða félagasamtökum og var verið að biðja um að fá að setja þak á þessar rústir en því var synjað. Á hvaða forsendum þessu synjað? Þegar við ferðumst um Hvalfjörð og við erum komin til móts við hvalstöðina, þangað fórum við sem börn að sjá hvali skorna og verkaða í skólaferðalögum, það er annað en í dag. Upp í hlíðinni sjáum við mjög marga gamla og ryðgaða olíutanka. Efast ég ekki um að það sé gott stálið í þeim en eru þetta stríðsminjar? Verða þessir tankar fjarðlagðir á næstu árum eða ekki?
Þegar við förum lengra hjá Þyrli er þyrping af gömlum bröggum sem eru notaðir sem gististaður eða þess háttar og er í alla staði mjög smekklegt og vel viðhaldið. Enn fremur í Hvalfirði skammt frá Hvammsvík eru elstu minjar (gömul bryggja) frá Breska setuliðinu og ekki má gleyma öllum gömlu minjunum frá Straumnesfjalli og fleiri stöðum. Við sem erum ættuð af Suðurnesjum eða höfum búið hér lengi og höfum starfað hjá varnarliðinu eigum sjálfsagt mörg okkar góðar minningar frá þessum stöðum.
Ég hef verið að velta því fyrir mér hver tekur ákvörðun eða hefur umboð til að svara svona spurningum? Spurningin er sú: hvað verður um þessar byggingar og þessa staði í framtíðinni?
Þórir Jónsson,
Reykjanesbæ