Stórvirki Gríms Karlssonar
- Aðsend grein frá Þorsteini Hákonarsyni
Það er við hæfi að taka eftir því meðan sá lifir, sem framið hefur stórvirki, sem við vitum öll um, en áttum okkur ekki á mikilfengleika átaks þessa manns, verði sýnd viðeigandi virðing. Ég er að tala um Grím Karlsson.
Bátasafnið hans og það sem fylgir, er eins mikilvæg söfnun sögu tuttugustu aldar og söfnun Árna Magnússonar á handritum. Vil ég af því tilefni gera sjósóknurum orð, að koma því til leiðar að gerð verði alvöru heimildarmynd um Grím og safn hans og farið um eins og í Stiklum Ómars Ragnarssonar, til að setja saman sjósóknarasögu Íslands meðan minni er til meðal lifandi fólks.
Það er enn til efni, sem á tveimur áratugum fer forgörðum ef ekki er gengið eftir og því safnað og skráð. Þið þekkið menn, sem þekkja menn, sem ýta á menn, sem láta menn gera.
Þorsteinn Hákonarson