Stórir áfangar í heilbrigðismálum
Það er markmið stjórnvalda að stuðla að góðu heilbrigðiskerfi fyrir alla landsmenn óháð efnahag. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar [https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/stjornarsattmali/] er kveðið á um að heilsugæslan verði styrkt enn frekar sem fyrsti viðkomustaður notenda, þjónusta aukin og heilsugæslustöðvum fjölgað. Kjörtímabilið er hálfnað og það má með sanni segja að góður árangur hafi náðst á þeim tíma. Það er af mörgu að taka en í þessari grein mun ég fjalla um það sem snýr að Suðurnesjum.
Einkarekin heilsugæslustöð tekur til starfa
Um síðustu mánaðamót tók ný einkarekin heilsugæsla til starfa við Aðaltorg í Reykjanesbæ og mun hún bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu á svæðinu verulega. Heilsugæslan Höfða sér um rekstur stöðvarinnar og hafa móttökur verið mjög góðar. Um er að ræða fyrstu einkareknu heilsugæsluna sem starfar eftir nýju fjármögnunarlíkani fyrir heilsugæslur á landsbyggðinni. Íbúar geta skráð sig á nýju heilsugæslustöðina á staðnum eða í gegnum réttindagátt Sjúkratrygginga á vefnum.
Ný heilsugæsla HSS í Innri-Njarðvík
Í sumar auglýsti Framkvæmdasýsla ríkisins eftir aðilum til að bjóða í byggingu og útleigu á aðstöðu fyrir nýja heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í Innri-Njarðvík. Nýja byggingin verður 1.640 fermetrar og leggur Reykjanesbær til lóðina og ráðgert er að starfsemi geti hafist um mitt ár 2025. Mikil íbúafjölgun hefur verið á Suðurnesjum og hefur aðgengi að heilbrigðisþjónustu verið ábótavant um langt skeið. Gera má ráð fyrir enn frekari fjölgun og umsvifum á svæðinu sem er eitt helsta vaxtarsvæði landsins. Nýrri heilsugæslu í Innri-Njarðvík er ætlað að þjónusta 12.000–15.000 íbúa.
Stórbætt aðstaða á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Undanfarið hefur verið unnið að endurbótum á aðstöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja við Skólaveg í Reykjanesbæ. Samkvæmt tilkynningu frá stofnuninni verður ný sjúkradeild á þriðju hæð, hjúkrunardeild á annarri hæð og ný slysa- og bráðamóttaka á fyrstu hæð formlega teknar í notkun í vikunni. Breytingarnar eru löngu tímabærar og verður auknu fjármagni varið af fjárlögum til eflingar á bráðamóttökunni.
Bætt aðgengi, betri heilsa
Um langt skeið hefur eitt helsta baráttumál mitt í stjórnmálum snúist um bætta heilsu og líðan íbúa. Aukið aðgengi að heilbrigðisþjónustu skiptir þar miklu máli. Það er mikið fagnaðarefni að verið sé að stórbæta heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og mikilvægt að auðvelda enn frekar aðgengi t.d. með heilsugæsluselum í Vogum og Suðurnesjabæ. Heilbrigðisráðherra er að lyfta grettistaki í málaflokknum og nú finna íbúar á Suðurnesjum fyrir þeim framförum með bættu aðgengi og betri þjónustu.
Áfram veginn!
Jóhann Friðrik Friðriksson,
þingmaður Suðurkjördæmis.