Störf í stað skatta
Kosningarnar á laugardaginn snúast um framtíð íslensku þjóðarinnar. Um það hvernig við komumst út úr núverandi erfiðleikum og byggjum á nýjan leik upp blómlegt atvinnulíf og samfélag.
Kastljós fjölmiðlanna hefur hins vegar beinst að öllu öðru en því hvernig það við ætlum að vinna að því verkefni. Vinstri flokkarnir reyna að komast hjá því að ræða vandann og úrlausnir við honum. Hið augljósa blasir við -vandinn hefur aukist í þeirra höndum og þeir hafa engar lausnir við honum.
Tekjufall ríkissjóðs kallar á róttækar aðgerðir og stórfellt atvinnuleysi má aldrei verða meira en tímabundið. Uppbygging atvinnulífs og endurreisn ríkissjóðs eru samhangandi verkefni. Við vinnum okkur aldrei út úr núverandi ástandi með skattpíningu og miðstýringu. Hvorki heimili né fyrirtæki mega við auknum byrðum og blönduð leið launalækkana og skattahækkana sem vinstri flokkarnir boða er eitraður kokkteill.
Leiðin út úr vandanum liggur í stórfelldu átaki til að fjölga störfum. Að fjölga vinnandi höndum og breikka þannig skattstofna ríkisins. Það hefur verið dapurlegt að horfa upp á Vinstri græna og hluta Samfylkingar gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tefja og helst stöðva fyrirhugaðar framkvæmdir í Helguvík sem skapa munu skapa þúsundir starfa. Sem betur fer tókst að koma fjárfestingarsamningi við Norðurál í gegnum Alþingi á síðustu stundu. En margar hindranir eru því miður enn í veginum og andstæðingar álvers úr röðum Samfylkingar og VG munu eflaust reyna að þvæla málið í lengstu lög.
Sú óbeit sem sumir stjórnmálamenn hafa á hátækniiðnaði eins og álframleiðslu er óskiljanleg í ljósi reynslu okkar Íslendinga. Álframleiðsla er orðin ein mikilvægasta atvinnugrein Íslands, þúsundir manna starfa í álverum í vinsælum og vel borguðum störfum, tugir milljarða flæða inn í ríkissjóð í formi skatta og gjalda. Gjaldeyristekjur okkar af áli hafa tvöfaldast á einu ári sem gerir okkur auðveldara með að komast úr núverandi stöðu.
Forsenda frekari uppbyggingar er að hér verði ekki lagðir á slíkir skattar og slík höft að erlendir fjárfestar muni um fyrirsjáanlega framtíð forðast Ísland og innlend fyrirtæki ekki leggja í þær fjárfestingar sem nauðsynlegar eru til að störfum fari að fjölga á ný. Um þetta verður kosið 25. apríl.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi