Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Stöndum vörð um velferðina
Mánudagur 1. desember 2008 kl. 12:35

Stöndum vörð um velferðina



Stjórnmálaályktun aðalfundar kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi haldinn í Sandgerði laugardaginn 29. nóvember 2008  er eftirfarandi:

Alþjóðlega fjármálakreppan hefur leikið Ísland grátt. Stærri gjaldeyriskreppa en áður hefur þekkst herjar nú líka á þjóðina. Grunngildi jafnaðarstefnunnar um jöfnuð, réttlæti og sanngirni  hafa aldrei verið mikilvægari en nú þegar hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar hefur beðið skipbrot. Öflugt eftirlit opinberra aðila er nauðsynlegt aðhald fyrir hinn frjálsa markað sem og skýrt regluverk. Fyrir því hafa jafnaðarmenn ávallt barist og munu gera áfram. Í kjölfar bankahrunsins bíður okkar erfitt og krefjandi verkefni við að endurreisa samfélagið. Sú endurreisn verður að byggja á gegnsæjum, sanngjörnum og réttlátum leikreglum þar sem allir fá jöfn tækifæri.
Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi lýsir yfir fullum stuðningi við þingflokk Samfylkingarinnar og ráðherra Samfylkingarinnar í þeim erfiðu verkefnum sem framundan eru.     
Framundan eru óvissutímar í efnahagsmálum þjóðarinnar. Eitt brýnasta verkefni Samfylkingarinnar í ríkisstjórn er að standa vörð um velferðarsamfélagið. Samfylkingin getur aldrei samþykkt 10% flatan niðurskurð í heilbrigðis – og velferðarmálum og hafnar framkomnum hugmyndum um stórfelldan niðurskurð á þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og Heilbrigðisstofnunar Vestamannaeyja.

Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hvetur stjórnvöld til þess að slá ekki þeim mikilvægu samgöngubótum sem fyrirhugaðar eru í kjördæminu á frest.
Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hvetur til þess að í þeim varnaraðgerðum og því uppbyggingarstarfi sem framundan er ríki jafnræði á meðal þegna og fyrirtækja landsins og þess sérstaklega gætt að bregða skildi fyrir þá sem minnst mega sín. Það verður best tryggt með góðu samstarfi verkalýðshreyfingarinnar, atvinnulífsins og ríkisstjórnar. Leita verður allra leiða til þess að koma til móts við heimilin í landinu, sem eru nú þegar komin í mikla erfiðleika vegna verðbólgu og hruns gjaldmiðilsins.
Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðukjördæmi hvetur til þess að slegin verði skjaldborg um Ríkisútvarpið sem hefur mikilvægu aðhaldshlutverki að gegna við þær aðstæður sem nú eru uppi.
Atburðir síðustu mánaða hafa einnig leitt í ljós mikilvægi þess að styrkja stöðu löggjafans gagnvart framkvæmdavaldinu.
Aðalfundur kjördæmisráð Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hvetur til þess að þegar verði hafnar viðræður við Evrópusambandið um hugsanlega aðild að sambandinu og um leið nauðsynlega aðkomu Íslands að Myntbandalaginu.

Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi fagnar þeim frumvörpum um rannsóknir á tildrögum bankahrunsins, sem lögð hafa verið fyrir Alþingi.
        
Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hvetur ríkisstjórnina til þess að endurskoða yfirstjórn Seðlabankans með það að markmiði að tryggja faglega yfirstjórn bankans.

    



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024