Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Stöndum vörð um starfsemi Sparisjóðanna
Laugardagur 18. apríl 2009 kl. 13:51

Stöndum vörð um starfsemi Sparisjóðanna

Sparisjóðirnir í landinu halda uppi öflugu útibúaneti á landsbyggðinni en starfsumhverfi þeirra er erfitt vegna ástands efnahagsmála. Ríkissjóður hefur heimild samkvæmt neyðarlögunum frá 6. október 2008  til að koma inn sem stofnfjáreigandi í sparisjóði landsins. Í heildina er talið að þurfi innan við 20 milljarða króna til að tryggja að sparisjóðirnir geti til framtíðar uppfyllt sitt hlutverk.  

Flestir sparisjóðir á landinu hafa óskað eftir því að stjórnvöld nýti þessa heimild sína og má þar nefna Sparisjóð Vestmannaeyja, en afgreiðslustaðir sjóðsins eru frá Hveragerði í vestri til Breiðdalsvíkur í austri, með aðalstöðvar í Eyjum.   Sama gildir um  Sparisjóðinn í Keflavík, en starfsemi  nær yfir  Suðurnes,  Vestfirði og er einnig með starfsemi í Snæfellsbæ.  Umsóknirnar hafa enn ekki fengið afgreiðslu og mikil óvissa ríkir því um framtíð sparisjóðanna í landinu. Þessir tveir sparisjóðir sem hafa aðstöðvar sínar í Suðurkjördæmi hafa löngum reynst sá hornsteinn í héraði sem miklu hefur skipt fyrir viðskiptamenn þeirra og byggðarlög.  

Lögmenn á vegum fjármálaráðherra eru enn og aftur að fara yfir þessi mál. Er það sennilega í fimmta sinn sem fram fer skoðun á málinu á síðustu sex mánuðum. Tregða við afgreiðslu mála og ótti við að taka ákvarðanir koma öllum illa. Nú er ekki tími fyrir kjarklausa stjórnmálamenn. Við sjálfstæðismenn erum ekki andsnúin sameiningu og hagræðingu í starfsemi sparisjóðanna, en svo virðist  sem innan embættismannakerfisins sé andstaða við að láta sparisjóðina lifa og dafna . Ríkisstjórnin er ekki að klára þetta mál frekar en mörg önnur, en það er á forræði Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns Vinstri-grænna.

Annað vandamál Sparisjóðanna í landinu er skortur á gjaldeyrisvörnum en við bankahrunið brugðust þær varnir sem bankar landsins höfðu gagnvart þeim erlendu lánum sem veitt höfðu verið. Þrátt fyrir að margir mánuðir séu síðan bankarnir óskuðu eftir liðsinni Seðlabanka Íslands hafa stjórnvöld ekki náð að klára afgreiðslu þess. Er það dæmi um ótta við afgreiðslu og frágang mála sem einkennir núverandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna.

Nú þarf að ganga hreint til verks og ekki dugar að búa við ákvörðunarfælni ríkisstjórnarinnar lengur. Við sjálfstæðismenn ætlum að gera það sem við getum til að tryggja starfsemi sparisjóðanna um land allt.

Unnur Brá Konráðsdóttir
Höfundur er í 3. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024