Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Stöndum vörð um Hitaveitu Suðurnesja
Fimmtudagur 23. júní 2005 kl. 15:15

Stöndum vörð um Hitaveitu Suðurnesja

Þorsteinn Erlingsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ skrifaði grein í Víkurfréttir 9. júní sl. um Hitaveitu Suðurnesja (HS) og það fóru um mig ónot að sjá glitta í hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar um einkavinavæðinguna og að sjá að nú væri hún farin að sá sér innandyra hjá bæjarstjórn Reykjanesbæjar. Þorsteinn segir m.a. að virði hlutabréfa í HS hafi tvöfaldast á fjórum árum og að hlutur Reykjanesbæjar sem er um 40% og hafi aukið eignir Reykjanesbæjar um 2,4 milljónir króna á dag eða 876 milljónir króna á ári síðustu fjögur árin þ.e.a.s. síðan HS var breytt í hlutafélag. Þorsteinn byggir sína útreikninga á nýju verðmati hlutafjárs HS sem reiknast nú á um  18 - 20 milljarða króna og að hlutur Reykjanesbæjar sé því 7,2 - 8 milljarðar en sé hins vegar bókfært mun lægri eða um 5,1 milljarður króna við síðustu áramót.

Í ársreikningi fyrir árið 2004 kom fram að að eigið fé bæjarsjóðs Reykjanesbæjar væri 3,5 milljarðar í árslok.  Hér er að sjá þegar stuðst er við eigið fé bæjarins í ársreikningi annars vegar og svo eigið fé hans vegna HS hins vegar í hlutabréfum upp á 5,1 milljarð króna, komi í ljós 1,6 milljarða skekkja í útreikningum sem þýðir að hlutabréf bæjarins í HS sem nemur þessum mismuni a.m.k. er veðsettur vegna lána frá fjármálastofnunum sem hefur þá eftir kokkabókum Þorsteins ríflegt veð fyrir þeim skuldum.

Nú er lag að fá okkur bæjarbúa til að trúa því að best væri fyrir okkur að selja hlutabréf Reykjanesbæjar í HS á nýja verðmatinu því, jú, þá myndum við græða 2,1 - 2,9 milljarða króna svona auka en fyrst verða Sjálfstæðismenn auðvitað að tryggja sér áframhaldandi völd á næsta kjörtímabili áður en farið væri að ræða þetta opinberlega. Þeir munu því trúlega nota nýja verðmatið í næsta ársreikningi til að sýna fram á betri stöðu í bókhaldi um eigið fé bæjarsjóðs. Hér er ekki reiknað með að hr. Árni Sigfússon bæjarstjóri verði sérstaklega sendur út af örkinni af Sjálfstæðismönnum í kosningaferðalag með peningana sem yrðu þá teknir að láni út á þetta verðgildi. 

Hér má því áætla að þetta svokallaða nýja verðmat sé í raun hálfvirði eða minna miðað við það verð sem einkavinir Sjálfstæðisflokksins myndu vilja sjálfir fá fyrir hlutabréfin í HS þegar þeir væru búnir að komast yfir þau.  Í hvaða hæðum yrðu orkureikningarnir okkar þá?  Vegna þessa sem lýst er hér að ofan þurfum við að hafa vara á hvað meirihluti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ ætli sér með hlut okkar bæjarbúa í HS.  Bæjarmálafélag  Frjálslynda flokksins í Reykjanesbæ mun standa vörð um hagsmuni  Reykjanesbæjar og að óskabarn okkar allra Suðurnesjamanna lendi ekki í gini hákarlanna sem nú þegar eru farnir að bíða eftir bráð sinni. 

Baldvin Nielsen

Situr í stjórn Bæjarmálafélags Frjálslynda flokksins í Reykjanesbæ og í miðstjórn Frjálslynda flokksins  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024