Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Stöndum saman um að segja satt
Sunnudagur 23. júní 2013 kl. 14:48

Stöndum saman um að segja satt

Held að ég verði að ætla það að bæjarstjórinn í Reykjanesbæ hafi verið að beina orðum sínum  á Víkurfréttavefnum sl. laugardag að mér, þrátt fyrir að ég hafi hvergi verið nefndur þar á nafn, enda fjalla flest efnisatriði greinar hans um atriði sem ég nefndi í fyrri grein minni um stöðu mála hvað varðar orkuöflun til álvers í Helguvík. 
Ætla ég að taka mér það leyfi að bregðast við tveimur atriðum í grein  hans en þau voru svohljóðandi:

„Það er fyrst og fremst leitt að það skuli hlakka í einhverjum hér í bæ yfir erfiðleikum við samninga á milli Norðuráls og HS Orku.“ 
„Það er ótrúlegt að einhver geti haldið því blákalt fram að Reykjanesbær hafi selt meirihluta sinn út úr HS Orku, því hann átti aldrei meirihlutann í HS.“
Nú veit ég svo sem ekki hvort bæjarstjórinn átti við mig þegar hann heldur því fram að það „hlakki í einhverjum“ vegna stöðu mála í Helguvík. En svona til þess að því sé haldið til haga þá hef ég frá fyrstu tíð verið stuðningsmaður þess að álver í Helguvík yrði byggt. Að því vann ég sem bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ á sínum tíma og ekki síður sem forsvarsmaður stéttarfélags hér á svæðinu. Alþýðusamband Íslands hefur tekið eindregna afstöðu með byggingu álvers og það er ekki lengra síðan en í síðustu viku að ég var á fundi á þeim vettvangi til að ræða leiðir sem gætu orðið til þess að þoka málum áfram.  Það var því engin „Þórðargleði“ í mínum huga þegar ég las viðtalið við forstjóra HS Orku heldur fyrst og fremst vonbrigði með stöðu mála.

Bæjarstjórinn hefur greinilega rennt yfir greinina mína á hundavaði því þar er hvergi að finna stafkrók um að Reykjanesbær hafi selt meirihlutann í HS. Bara svo að ég ítreki það sem ég sagði þá var það bara svona: „Það skyldi þó ekki vera að ráðamenn í Reykjanesbæ hafi skotið sig svo illilega í fótinn þegar þeir í krafti meirihlutaræðis seldu frá sér hitaveituna á sínum tíma?“ 
Það er auðvitað munur á því að selja meirihluta eða að selja í krafti meirihlutaræðis.
En þetta er auðvitað bara hártog um keisarans skegg og ekki ástæðan fyrir því að ég bregst við þessari grein bæjarstjórans, heldur það ákall hans til okkar um að standa saman.  Undir það tek ég og mun leggja mitt af mörkum til þess að svo verði, ekki bara í þessu máli,  heldur einnig mörgum öðrum. Pólitík og orðræða almennt má hins vegar ekki snúast um það halda sannleikanum frá fólki, hversu óþægilegur eða erfiður sem hann annars kann að vera. 
Stöndum því saman að því að segja satt, um leið og við vinnum að því að sigla góðum málum í örugga höfn.

Guðbrandur Einarsson
.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024