Aðsent

Stofnun samtaka andstæðinga stóriðju í Helguvík
Mánudagur 8. maí 2017 kl. 14:50

Stofnun samtaka andstæðinga stóriðju í Helguvík

- Aðsend grein frá Einari Má Atlasyni

Kæru íbúar Reykjanesbæjar og nágrennis,

Nú blasir við okkur sú staðreynd að hér munu rísa tvö af stærstu kísilmálmverum heims í innan við tveggja kílómetra fjarlægð frá næstu byggð. Reynsla okkar af fyrstu skrefum í vegferð þeirrar stóriðju sem til stendur að muni rísa í Helguvík hefur hingað til ekki verið eins og best verður á kosið, hvorki hvað varðar umhverfismat, skipulag, ásýnd eða mengunarvarnir. Fyrir mörg okkar eru þessar byggingar það fyrsta sem blasir við þegar horft er út um stofu- eða eldhúsglugga og þykja ekki fallegar ásýndar. Hestafólk hér á Suðurnesjum hefur ekki farið varhluta af þeirri mengun sem hefur komið frá þessu nýreista mengunarvirki í næsta nágrenni við hesthúsin þeirra. Enda fóru þeir fram með kröftug mótmæli strax við fyrstu kynningu á því mengunarslysi sem stefndi í. Íbúar Heiðarhverfis, margir hverjir ef ekki flestir og þeir sem búa í næsta nágrenni, hafa líka fengið sinn skerf af þeirri mengun sem komið hefur frá þeim undanfarna mánuði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nú vil ég spyrja ykkur íbúa Reykjanesbæjar.
Hver er afstaða ykkar til þeirrar stóriðju sem til stendur að rísi í Helguvík?

Er einhver vilji hjá ykkur til að taka þátt í að stöðva uppbyggingu þessara eiturspúandi verksmiðja í anddyri bæjar okkar ? 

Í ljósi atburða síðustu mánaða óskum við eftir því að þið íbúar sýnið samstöðu ykkar í verki.
Hugsum um framtíð þessa bæjarfélags og barnanna okkar sem eiga eftir að lifa við þessa heilsufarsógn um ókomna tíð ef af verður.

Hér má nálgast upplýsingar um stofnfund Samtaka andstæðinga stóriðju í Helguvík

Einar Már Atlason