Stofnun Rótarý
Þegar verið er að minnast stofnun Rótarý er ekki úr vegi að byrja á því að rifja upp sögu hins unga lögfræðings frá Chicago, stofnanda Rótarý; Paul P. Harris, sem átti hugmyndina að stofnun hreyfingarinnar og að með því að ná fram miklum markmiðum í gegnum vináttu, næði Rótarý að snerta strengi í hjarta og huga hins mikla fjölda karla og kvenna um allan heim.
Paul Harris trúði staðfastlega að vinátta, blönduð skynsemi gæti útkljáð hverskonar deilur, það aðeins að kynnast annarri manneskju gæti leitt til friðsamlegra samskipta. Þessi hugmynd hans hefur sannað sig oftar en við getum ímyndað okkur.
Hann boðaði til fundar þann 23. febrúar 1905 á skrifstofu félaga síns Gustavus Loehr sem var námaverkfræðingur en aðrir á fundinum voru Silvester Schiele kolakaupmaður og Hiram Shorey fatakaupmaður og klæðskeri.
Þessir fjórir fundarmenn voru af mismunandi bergi brotnir, af sænskum, þýskum, írskum og gyðingaættum komnir og trúarbrögð þeirra voru einnig ólík. Þeir voru því sannir fulltrúar þeirrar þjóðarblöndu sem óx og dafnaði í Bandaríkjunum og raunar einnig þeirrar alheimshreyfingar sem spratt upp af þessu framtaki þeirra.
Þarna var ákveðið að stofna til þessa fyrsta þjónustuklúbbs í heiminum og ákveðið að hittast á skrifstofum þeirra til skiptis einu sinni í viku og þannig kom nafnið Rotary til, vegna þess að þeir róteruðu á milli fundarstaða.
Fljótlega bættist fimmti félaginn við, Harry Ruggles prentari, hann er aðalega þekktur innan Rótarý vegna þess að hann fékk félaganna til þess að syngja í upphafi hvers fundar og fljótlega var gerð Rótarýsöngbók sem naut mikilla vinsælda.
Í árslok 1905 voru félagarnir orðnir 30 að tölu og komust varla fyrir inn á skrifstofunum þar sem fundirnir voru haldnir og því ákveðið að færa fundina til inn á veitingastaði.
Það var aldrei ætlun Paul Harris, stofnanda Rótarýhreifingarinnar, að klúbburinn sem hann stofnaði til yrði eingöngu vettvangur umræðna um viðskipta- og framkvæmdamál þótt frá öndverðu gilti sú regla að félagarnir væru fulltrúar úr hinum ýmsu starfsstéttum. Þetta áttu einnig að vera glaðværir samfundir, ánægja og vinahlýja skyldi sitja í fyrirrúmi.
En meira skyldi að gert. Klúbburinn átti að sinna verkefnum sem til bóta og framfara horfði í samfélaginu.
Þeir fóru fljótlega að láta góðgerðamál til sín taka og fóru að hjálpa þeim sem minna máttu sín og fyrsta málið sem gerði þá að raunverulegum þjónustuklúbbi var þegar Rótarýklúbbur Chicago gaf prédikara nokkrum vagnhest, þar sem hestur prédikarans hafði drepist og prestur var of fátækur til þess að kaupa annan hest, til þess að ferðast um og þjóna kirkjum og kirkjusóknum sem hann hafði tekið að sér. Fáeinum vikum seinna létu þeir félagar byggja fyrstu salernisaðstöðu fyrir almenning og við ráðhús Chicago-borgar.
Vinsældir Rótarýklúbbsins í Chicago fréttust fljótt til annarra borga í Bandaríkjunum og 1908 voru tveir klúbbar stofnaðir í Kaliforníu og síðan voru Rótarklúbbar stofnaðir vítt og dreift um Bandaríkin á næstu árum.
Árið 1910 er fyrsti klúbburinn stofnaður utan Bandaríkjanna en það var í Winnipeg í Kanada og ári seinna, 1911, flyst hreyfingin yfir Atlandshaf .
Aðild kvenna að Rótarýhreyfingunni var samþykkt á Löggjafarþingi Rótarý, sem haldið var í Singapore 1989.
Einstakt verkefni sem hófst árið 1979 með bólusetningu á yfir sex milljón barna á Filippseyjum og er enn í gangi hjá okkur. Þetta er verkefni sem allir Rótarýfélagar í heiminum eru að vinna að, útrýming lömunarveikinnar eða eins og við köllum þetta verkefni PolioPlus.
Það eru aðeins tvö lönd í heiminum þar sem tilfelli lömunarveiki hafa fundist á árinu 2018, það er í Pakistan og Afganistan. Rótarýfélagar hafa hjálpað við að bólusetja 2,5 miljarða barna í 122 löndum á þessum árum.
Fyrsta tilraun til þess að stofna Rótarýklúbb á Íslandi var gerð árið 1920 er Rótarýfélagar frá Hull á Englandi reyndu að stofna Rótarýklúbb í Hafnarfirði en þar sem engin veitingastaður eða almennur fundarstaður var til í þessu litla fiskiþorpi, sem Hafnarfjörður var í þá daga, mistókst sú tilraun.
Árið 1933 settu félagar frá Kaupmannahafnar Rótarýklúbbnum sig í samband við fyrrverandi bæjarstjóra Reykjavíkur og kynntu starfsemi Rótarý fyrir honum. Þetta var Knut Zimsen sem seinna varð fyrsti forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Á þessum tíma var Ísland í sambandi við Danmörk og höfðum við sama konung. Næsta ár komu tveir félagar frá Rótarýklúbbi Hanover í Þýskalandi með skemmtiferðaskipi til Íslands og höfðu þeir verið beðnir af stjórn Rótarýklúbbs Kaupmannahafnar að tala við Knud Zimsen og kynna Rótarý betur fyrir honum. Þeir félagar stoppuðu aðeins einn dag í Reykjavík og þeir yfirgáfu Knut Zimsen ekki fyrr en hann hafði skrifað undir bréf til Rótarýklúbbs Kaupmannahafnar með boði um að koma þá um haustið til Reykjavíkur og hitta framámenn í þjóðfélaginu. Þjóðverjarnir tóku sjálfir bréfið, fóru með það niður á pósthús og sendu það til Kaupmannahafnar þar sem þeir vildu vera vissir um að bréfið færi strax af stað.
Þrír félagar frá Rótarýklúbbi Kaupmannahafnar komu síðan í september þetta ár og unnu að stofnun Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Fyrsti fundurinn var haldinn þann 13. september og höfðu 20 félagar þá skráð sig inn í klúbbinn. Stofnbréf Rótarýklúbbs Reykjavíkur var samþykkt 31. maí 1935 sem klúbbur # 3842 í umdæmi 75. Kaupmannahöfn.
Er Ísland öðlaðist sjálfstæði sóttum við það stíft að verða sjálfstætt umdæmi innan Rótarýhreyfingarinnar og fengum okkar eigið umdæmi þann 1. júlí 1946 með númerinu 74.
Þessu var seinna breitt vegna endurskipulags Rótarýumdæma í heiminum og okkar umdæmi varð númer 126 og með annari breytingu númer 136 og núna erum við í umdæmi 1360.
Í dag eru starfandi 31 Rótarýklúbbar á Íslandi og með yfir 1200 félaga.
Keflavík 4. febrúar 2019
Ómar Steindórsson