Stjórnmálaályktun Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi
Kjördæmisþing Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi, haldið 21-22 október 2011, fagnar því að Framsóknarmenn hafi nú enn á ný lagt fram á Alþingi skýrar tillögur undir nafninu planb.is til að hraða uppbyggingu í atvinnumálum og efnahagsmálum.
Endurskipulagning skulda heimila og fyrirtækja auk uppbyggingu jákvæðs rekstrarumhverfis til að létta á atvinnuleysinu eru algjör forgangsmál sem núverandi stjórnvöld eru ófær um að leysa. Brýn nauðsyn er á almennri leiðréttingu skulda og endurskoðun skattkerfisins eins og tillögur Framsóknarmanna um stöðugleika í efnahagsmálum gera ráð fyrir.
Kjördæmisþingið minnir á að þegar Framsóknarmenn lögðu fram efnahagstillögur sínar í febrúar 2009 sameinuðust núverandi ríkisstjórnarflokkar um að slá þær út af borðinu með öllum tiltækum ráðum. Reynsla síðustu tveggja ára hefur hins vegar sýnt að tillögurnar voru skynsamlegar og nauðsynlegar og vel framkvæmanlegar.
Í ljósi þeirrar reynslu telur Kjördæmisþingið ljóst að tillögur Framsóknarmanna hljóti að fá sanngjarna umfjöllun og almennan hljómgrunn á Alþingi nú.
Skynsamleg efnahagsstjórn.
Þingið leggur áherslu á að við uppbyggingu samfélagsins verði réttlæti og félagslegt jafnrétti haft að leiðarljósi ásamt þeim gildum sem reynst hafa þjóðinni best. Heiðarleiki og dugnaður séu lögð til grundvallar. Þá áréttar þingið að kraftur einstaklingsins og samvinna einstaklinga og hópa eru jafnan best til þess fallinn að efla og byggja upp samfélag. KSFS hvetur Alþingi til að setja lög um þak á verðtryggingu og þannig minnka vægi verðtryggingar í íslensku samfélagi.
Velferðarkerfið.
KSFS hvetur þingmenn flokksins til að berjast einarðlega fyrir að allir landsmenn sitji við sama borð þegar kemur að opinberri þjónustu. Fyrirhugaður niðurskurður á heilbrigðisstofnunum er glórulaus og mun ef fram gengur vera ein alvarlegasta aðför að búsetu og lífskilyrðum á landsbyggðinni sem gerð hefur verið. Þing KSFS fordæmir þá stefnu og pólítísku sýn sem birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Nauðsynlegt er að tryggja grunnþjónustu um land allt og jöfn búsetuskilyrði.
Skuldir heimila. Frá hruni hefur stjórnvöldum mistekist að endurreisa bankanna með þeim hætti að þjóni best heimilum og fyrirtækjum. Enn hefur ríkisstjórnin þverskallast við að efla fyrirheitin um „skjaldborg heimilanna“. Því leggur þing KSFS til að leitað verði allra leiða til að leiðrétta stöðu skuldugra heimila. Meðal aðgerða sem horft verði til sé sanngjörn skuldaleiðrétting,- Um þessar aðgerðir þarf að nást víðtæk sátt milli stjórnvalda, almennings og fjármálafyrirtækja. Jafnframt skorar þingið á Alþingi að grípa til aðgerða til að styðja húsnæðissamvinnufélög, almennan leigumarkað á íbúðarhúsnæði og að Íbúðalánasjóði verði gert kleyft að standa undir þeim væntingum sem til hans eru gerðar.
Samgöngumál.
Greiðar samgönguleiðir eru lífæð landsins. Þingið leggur áherslu á að áfram verði haldið uppbyggingu og viðhaldi vegakerfis sem og uppbyggingu og viðhaldi fjarskiptakerfis þrátt fyrir efnahagsþrengingar. Uppbygging samgöngumannvirkja getur í senn tryggt umferðaröryggi og skapað vinnu þannig leggur þing KSFS til að sett verði fjármagn til að tvöfalda fjölmargar einbreiðar brýr í kjördæminu.
Þingið leggur áherslu á að áfram verði haldið með breikkun Suðurlandsvegar. Einnig verði tryggt að á næstu vegaáætlun verði helstu samgöngubætur eins og að ljúka Suðurstrandavegi ofan við Grindavík nýr vegur yfir Hornafjarðarfljót, nýr vegur í gegnum Mýrdal með jarðgöngum í gegnum Reynisfjall ásamt uppbyggingu tengivegakerfisins á öllu landinu eftir umferðarþunga. Þingið leggur áherslu að fundinn verði frambúðarlausn á samgöngum milli lands og Eyja.
KSFS þingið hvetur til að Alþingi setji fram áætlun hvernig efla megi og stækka hafnaraðstöðu í höfnum kjördæmisins sem og öðrum mikilvægum höfnum landsins.
Menntamál. Á erfiðleika tímum er mikilvægt að tryggja jafnrétti til náms. KSFS hvetur þingmenn flokksins til að standa vörð um LÍN, og jöfnunarstyrki til framhaldsskólanema. Suðurkjördæmi hefur átt undir högg að sækja í menntamálum. Mikilvægt er að hlúa að þeim stofnunum sem taka við nemendum sem eru að sækja á nýjan leik inn í menntakerfið til að komast út úr atvinnuleysi og skorti á menntun. Má í þessu sambandi sérstaklega nefna Keili, fisktækniskóla Suðurnesja og símenntunarmiðstöðvar í kjördæminu. KSFS telur að þingmenn kjördæmisins, sveitarstjórnarmenn sem og forstöðumenn menntastofnanna verði að taka höndum saman til að finna leiðir til að efla menntun og menntunarstig íbúa kjördæmisins.
Atvinnumál.
Forsenda hagvaxtar, niðurgreiðslu skulda þjóðarbúsins og viðunandi lífskjara er að þjóðin afli meira en hún eyðir. Því verður á næstu árum að leggja áherslu á að efla hvers kyns íslenska framleiðslu og hvetja til neyslu hennar jafnframt því að öll tækifæri til eflingar útflutnings á vöru og þjónustu séu nýtt. Aukin fjárfesting í atvinnulífinu er forsenda þess að unnt sé að hefja nýja sókn á þeim vettvangi. Eyða þarf óvissu sem nú ríkir í sjávarútvegi. Matvælaiðnaður sem byggir á sjávarútvegi og landbúnaði er og mun verða grunnstoð í atvinnulífi Íslendinga. Fjölmörg tækifæri eru innan þessara greina til nýsköpunar, fjölgunar starfa og aukningar í útflutningi. Má þar nefna vaxandi sjávarafla og betri nýtingu hans. Fiskeldi jafnt á landi sem í sjó. Verulega aukningu í framleiðslu hefðbundinna landbúnaðarafurða og útflutningi. Þingið leggur til að við endurskoðun jarða- og ábúðarlaga verði tryggt að gott ræktarland verði áfram nýtt til landbúnaðar. Þá leggur þingið til að endurskoðuð verði lög um auðlindir með það fyrir augum að íslenska þjóðin njóti arðs sem af þeim skapast. Þingið krefst þess að um mikilvægustu atvinnugreinarnar ríki sem víðtækust sátt og atvinnugreinarnar fái að starfa og dafna.
Ferðaþjónustan hefur á liðnum árum eflst og er nú orðinn ein að mikilvægustu atvinnugreinum landsins. Þingið leggur áherslu á að áfram verði stutt við bakið á atvinnugreininni og markaðsetning aukin, með það markmið að efla heilsársferðaþjónustu.
Orkuöflun og orkunýting eru þær atvinnugreinar sem mestur vöxtur hefur verið í á liðnum árum. Nýsköpun og þróun margvíslegra nýrra atvinnutækifæra í tengdri starfsemi munu færa okkur fjölda starfa og gjaldeyri ef okkur auðnast að standa saman að uppbyggingunni. Þingið gagnrýnir stjórnvöld harðlega fyrir að bregða fæti fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkutengdra verkefna með sundurlyndi og öfgapólitík. Jafnframt hvetur þingið stjórnvöld til að standa við stóru orðin um stuðning við grænu stóriðjuna og þannig m.a. lækka rafmagnskostnað garðyrkjunnar og setja fram raunáætlun um stuðning við umhverfisvæna orkugjafa í samgöngum (rafmagn, metan, vetni og lífdísel).
Evrópusambandsaðildarumsókn.
Með aðildarumsókn að ESB hefur ríkisstjórnin lagt mikla pressu á stjórnkerfið á erfiðleikatímum. Þingið átelur vinnubrögð ríkisvaldsins við undirbúning og framkvæmd aðildarumsóknarinnar enda hefur vinnan hvorki verið unnin í samræmi við þau skilyrði sem flokksþing Framsóknarflokksins setti í janúar 2009 né í samræmi við þá þingsályktun sem samþykkt var. Mikil ábyrgð hvílir á herðum fjölmiðla að tryggja opinskáa heiðarlega umfjöllun á jafnræðisgrundvelli. Margt bendir til að það hafi mistekist.
Sveitarfélög.
Efnahagslegt umhverfi margra sveitarfélaga er erfitt um þessar mundir. Mikilvægt er að traust, trúnaður og jafnræði ríki milli stjórnsýslustiganna tveggja. Þing KSFS lýsir yfir áhyggjum sínum af vaxandi kostnaði við félagsþjónustu um leið og efi leikur á að jöfnunarsjóður sveitarfélaga geti jafnað þann mun á milli sveitarfélaga. Mikilvægt er að sveitarfélögunum séu tryggðar tekjur til að standa undir nærþjónustu við íbúanna. Þingið lýsir yfir stuðningi við að fleiri verkefni verði flutt til þeirra og sveitarfélögin efld. Nauðsynlegir tekjustofnar þurfa að fylgja slíkum verkefnaflutningi. Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur sem leitar skynsamlegra lausna á hverjum vanda. Hlutverk framsóknarmanna í sveitarstjórnum hefur aldrei verið brýnna.
Lokaorð.
Ríkisstjórn VG og Samfylkingar hefur nú haft nærri þrjú ár til að sýna með hvaða hætti hún getur og vill bregðast við aðsteðjandi vanda og kreppu. Ítrekað hefur getuleysi ríkisstjórnarinnar komið fram. Þrátt fyrir úrræðaleysið og þrátt fyrir að hafa fengið í hendurnar tillögur um skynsamari leiðir hefur ríkisstjórnin hafnað því að skipta um kúrs. Fjárlagafrumvarpið 2012 er enn nýr skammtur að því sama. Enn á að hækka skatta á heimili og fyrirtæki og óhóflegur niðurskurður veldur ótta og öryggisleysi. Nú er nóg komið. Þjóðin þarf nú sem aldrei fyrr á öruggri forystu að halda. Þá forystu og verkstjórn er ekki að finna hjá núverandi stjórnvöldum. Þing KSFS tekur undir að leiðin fram á við sé plan B. Við þurfum nýja áætlun, nýja stefnumótun, um hvernig við aukum tekjur heimila, fyrirtækja og ríkisins, minnkum atvinnuleysi, og breytingum á skattakerfinu – þannig og aðeins þannig komumst við út úr kreppunni.