Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands
Laugardaginn 27. nóvember n.k. verður kosið til stjórnlagaþings. Um fyrstu persónukosningar lýðveldisins er að ræða, sem er ekki bara merkilegt í sögulegu ljósi, heldur gefst þjóðinni í fyrsta sinn tækifæri til að velja „hlutlausa“ einstaklinga í þetta krefjandi verkefni, þ.e. einstaklinga án tengsla við pólitíska flokka eða hagsmunasamtök.
Háværa kröfu um endurskoðun og endurbætur á stjórnarskránni hefur mátt greina í talsverðan tíma.
Ég tek undir að stjórnarskráin þarfnast endurbóta en hvort rétti tíminn sé núna, er vafamál í mínum huga. Ég tel að einblína eigi á heimilin og atvinnulífið fyrst. En þrátt fyrir þá skoðun mína, er kosning til stjórnlagaþings n.k. laugardag veruleikinn og ég vil bjóða fram krafta mína til þessa krefjandi verkefnis.
Frambjóðandinn #4305
Ég heiti Halla Björg Evans og er þrítug tveggja barna móðir. Ég er trúlofuð Brynjari Erni Sigmundssyni og búum við saman í Kópavogi ásamt stúlkunum okkar tveimur. Ég er uppalin á Suðurnesjum (Njarðvík) en menntuð í Borgarfirðinum. Brynjar er alinn upp á Sauðárkróki.
Ég vinn sem lögfræðingur á skattasviði KPMG hf. í Reykjavík við fjölbreytt verkefni. Ég er útskrifuð af viðskipta- og hagfræðibraut frá Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Ég er með B.sc. gráðu í viðskiptalögfræði og ML gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst. Ég er óflokksbundin og ótengd hagsmunasamtökum.
Málefnin
Það er ljóst, að mínu mati, að nauðsynlegt sé að styrkja lýðræðið í landinu og aðgreina löggjafarvaldið frá framkvæmdavaldinu. Vonir mínar standa til að á þetta þing veljist hæft fólk, sem bætir stjórnarskránna vegna áhuga og af skynsemi og yfirvegun.
Ég tel að styrkja þurfi löggjafarvaldið (Alþingi), framkvæmdavaldið (ráðherra) og dómsvaldið með algjörri þrískiptingu, þ.e. þingmenn gegni ekki embætti ráðherra og ráðherra skipi ekki dómara. Við þurfum að yfirfara sérstaklega 14. gr. um ráðherraábyrgð, sérstaklega í ljósi þess að þingmenn séu ekki ráðherra. Það þarf einnig að fækka þingmönnum og skilgreina betur stöðu og hlutaverk forseta Íslands. Það þarf einnig að taka af öll tvímæli um málskostréttinn. Það er algjörlega ljóst að standa
þarf vörð um framsal ríkisins og gefa enga afslátt í þeim efnum. Það verður að setja ákvæði um framsal ríkisvaldsins, líkt og gert var í norsku stjórnarskránni. Það þarf einnig að styrkja lýðræðislega þátttöku almennings, m.a. með þjóðaratkvæðisgreiðslu um mikilvæg málefni. Einnig þarf atkvæðavægi kjósenda að vera jafnt eftir búsetu og fækka verulega kjördæmum/eitt kjördæmi. Við verðum að skerpa á ákvæðum um eignarréttinn yfir auðlindum landsins (vantið meðtalið) enda eiga auðlindirnar að vera í eigu þjóðarinnar. Við megum heldur ekki gleyma að skilgreina fullveldi, lýðræði
og þingræði í stjórnarskránni, enda teljast þau til helstu stoða íslenskrar stjórnskipunar.
Ég hvet ykkur öll til þess að mæta á kjörstað enda er um einstakt tækifæri að ræða. Þetta vefst þó fyrir mörgum, enda skiljanlegt - úrvinnslan er frekar flókin og frambjóðendurnir margir en með smá undirbúningi tekur þetta ekki mikið lengri tíma en við venjulegar kosningar. Við erum rík þjóð, enda höfum við úr svo mörgu hæfileikaríku og frambærilegu fólki að velja og ef við hjálpumst að, þá verður þetta bæði auðvelt og skemmtilegt.
Bestu kveðjur,
Halla Björg Evans, frambjóðandi nr. 4305
sjá nánar á http://hallabjorgevans.123.is/