Sterkir innviðir forsenda atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum
– Er landeldi á laxi í nýjum stærðarskal
Það er sláandi alvarleg staða á vinnumarkaði á Suðurnesjum og atvinnuleysið að fara yfir öll mörk. Þessi staða er fyrst og fremst verkefni til að takast á við og verður leyst með sameiginlegu átaki – en erum við að gera allt sem þarf til þess að skapa hér ný störf? Atvinnulíf verður ekki til með einni hendingu og það þarf að skapa aðstæður og tryggja sterka innviði til þess að hingað komi atvinnutækifæri sem skapa fleiri fjölbreytt og vel launuð störf.
Hvernig hafa opinberir aðilar á Suðurnesjum tekið þeirri hugmynd að samstarfsaðilar okkar í varnarsambandi vestrænna ríkja, NATO, ýti á framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli og Helguvík sem frekast má vera til að mæta þeirri stöðu sem er hér á vinnumarkaði? Það ætti að vera hagur allra að framkvæmdir sem þegar eru í sjónmáli komi til framkvæmda nú þegar í þeirri ógnarstöðu sem er á vinnumarkaði á Suðurnesjum.
Við gerum líka kröfu til ríkisvaldsins um aðkomu að uppbyggingu hafnargarðs og hafnaraðstöðu í Njarðvíkurhöfn sem er forsenda uppbyggingu skipaþjónustuklasa sem er í burðarliðnum. Í heild er framkvæmdakostnaður við garðinn og hafnaraðstöðuna um 1,2 milljarðar króna og gæti skapað hér um 230 störf. Ríkið á að koma myndarlega að þeirri uppbyggingu og tryggja með því ný störf og mikil umsvif. Leitað er leiða til að finna nýjan viðlegustað fyrir varðskipin og horft til Njarðvíkurhafnar í því sambandi. Góð lausn fyrir alla.
Meðan óveðurskýin hrannast í atvinnulífinu berast góðar fréttir um að Samherji hugi að fiskeldi í húsum Norðuráls á Helguvík. Ekki liggur fyrir hvaða stærð af eldi eða fjöldi starfa fylgja þessum góðu tíðindum. Ef að líkum lætur er hér á ferðinn stórhuga hugmynd með stórfelldu landeldi sem kallar á fjölda starfa. Nálægð við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík, öryggi í afhendingu og nálægð við góðar samgöngur er hluti að gæðum fyrirtækis sem flytur ferska vöru á erlendan markað víða um heim. Fiskeldisfyrirtæki í fremstu röð er frábær viðbót við hugmynd um Flugvallarborg sem KADECO vinnur að í samstarfi við sveitarfélögin.
Kraftmikið eldi í Helguvík er orkufrek matvælaframleiðsla sem kallar á öryggi í raforkuflutningum og næga orku. Nú er ég að geta mér til en líklegt er að fyrir hvert megavatt af orku væri hægt að framleiða 1.000 tonn af eldisfiski. Dælukostnaður fer eftir því hvort gegnumstreymiseldi eða fyrirtækið endurnýti vatn og sjó og hreinsa í gegnum lífhreinsa sem er lífræn hreinsun og er klárlega hluti af nútímalegri ábyrgri matvælaframleiðslu sem fyrirtæki eins og Samherji vill örugglega standa fyrir. Suðurnesin verða að standast álagskröfur sem tryggja hingað framsækið atvinnulíf með sterkum innviðum.
Á Suðurnesjum eru góðar samgöngur í allar áttir, nægt landrými, nóg af hreinu vatni og sjó, öflugt atvinnulíf og þjónustuaðilar, nóg af vinnufúsum höndum sem vilja fjölbreyttara atvinnulíf. Ný og áður óþekkt stærð á landeldi gæti verið að rætast í Helguvík. Tökum tækifærunum opnum örmum en þá verðum við líka að láta af hreppapólitík um Suðurnesjalínu 2 sem er ein forsenda nýsköpunar og nýrra tækifæra í fjölbreyttara atvinnulífi á Suðurnesjum. Það verður ekki bæði sleppt og haldið.
Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.