Sterkari Suðurnes!
Vegna mikillar fjölgunar íbúa á Suðurnesjum verður að styrkja innviði til að takast á við aukið álag, einkum á heilsugæslu og lögreglu.
Sérstakar áherslur Samfylkingarinnar fyrir Suðurnes fyrir næsta kjörtímabil eru þessar:
Heilbrigðisþjónusta fyrir alla
Til að mæta þessum áskorunum og tryggja góða heilbrigðisþjónustu á Suðunesjum þarf að stórauka fjármagn til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, bæta húsnæði og starfsaðstöðu, styrkja stofnunina faglega og fjölga heilbrigðisstarfsfólki til muna.
Ný heilsugæslustöð í Reykjanesbæ taki til starfa strax á næsta ári og tímasett og fjármögnuð áætlun unnin fyrir heilsugæslu í Suðurnesjabæ. Námsplássum fjölgað fyrir hjúkrunar- og læknanema.
Félagsþjónusta og heilsugæsla vinni saman með skipulögðum hætti í öllum sveitarfélögunum. Dagdvalarrýmum og hjúkrunarrýmum fyrir eldra fólk fjölgað.
Fjölbreyttari atvinnutækifæri
Gáttin er inn í landið um alþjóðaflugvöll á Suðurnesjum og nánast allir erlendir ferðamenn fara þar um. Tryggja þarf lögreglunni og viðbragðssveitum fjármagn til að sinna auknum verkefnum. Ferðaþjónusta og sjávarútvegur eru öflug á svæðinu en fleiri stoðum þarf að renna undir atvinnulífið.
Bæta aðstöðu á vinsælum ferðamannastöðum og fjölga viðkomustöðum með betra aðgengi.
Efla nýsköpun og veita þróunarstyrki til sprotafyrirtækja á sviði líftækni, hugverkaiðnaðar og framleiðslu heilsuvarnings og matvæla. Fjölga störfum án staðsetningar.
Efla listnám og fjölga störfum í menningu og skapandi greinum. Námsframboð og aðgengi að námi verði bætt með stuðningi við menntastofnanir.
Efla lögregluembættið. Fjölga lögreglumönnum og bæta starfsaðstöðu þeirra. Flytja Landhelgisgæsluna til Suðurnesja.
Samgöngu- og loftlagsmál
Ljúka þarf tvöföldun Reykjanesbrautar sem fyrst og auka samvinnu Vegagerðarinnar og sveitarfélaga um lagningu göngu- og hjólastíga. Styrkja flutningsgetu rafmagns með öflugri Suðurnesjalínu.
Efla og styrkja Keflavíkurflugvöll sem umhverfislega, félagslega og efnahagslega sjálfbæra miðstöð farþegaflugs í Norður-Atlantshafi. Endurskoða áform um byggingu flugvallar í Hvassahrauni vegna eldsumbrota við Fagradalsfjall og meta Keflavíkurflugvöll sem kost fyrir innanlandsflug.
Hefja undirbúning að Keflavíkurlínu, grænni tengingu milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar.
Ýta undir nýsköpun í umhverfismálum og möguleika á að skapa verðmæti úr sorpi. Styrkja fráveituframkvæmdir sveitarfélaga og tilraunir með lífrænar rotþrær.
Samfylkingin setur fjölskylduna í forgang með óskertum barnabótum að meðallaunum, bættum kjörum eldra fólks og öryrkja og aðgerðum í húsnæðismálum. Öflugra heilbrigðiskerfi er sérstakt áherslumál ásamt því að renna fleiri stoðum undir atvinnulífið, ráðast í kröftugar aðgerðir í loftslagsmálum, setja nýja stjórnarskrá aftur á dagskrá ásamt þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn um aðild að ESB. Nánar má lesa um kosningaáherslur Samfylkingarinnar fyrir landið allt á vefnum www.xs.is.
Oddný G. Harðardóttir og Viktor S. Pálsson.
Höfundar skipa 1. og 2. sætið á lista Samfylkingarinnar
í Suðurkjördæmi.