Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sterkari saman
Föstudagur 7. september 2018 kl. 14:25

Sterkari saman

Suðurnesjamenn þurfa aukna fjármuni frá ríkinu til að bæta  opinbera þjónustu á svæðinu, ekki síst til að styrkja rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Það er mikilvægt að ríkið taki fordæmalausa fjölgun íbúa með í reikninginn, sérstaka íbúasamsetningu og fjölda ferðamanna þegar fjárlög eru sett. Við sem höfum aðkomu að stjórnsýslunni þurfum að vera samtaka um að breyta því og missa okkur ekki í pissukeppni. Við erum alltaf sterkari saman.  
 
Hvað fengu Suðurnesin 2018?
Í fjárlögum fyrir árið 2018 sáum við viðbætur til svæðisins. Til dæmis voru 200 m.kr. sérmerktar framkvæmdum á Grindavíkurvegi. Öðrum samgönguverkefnum á svæðinu fylgjum við svo eftir við gerð samgönguáætlunar, sem nú stendur yfir. Í fjárlögum var ákveðið að 400 m.kr. færu til reksturs heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, auk 200 m.kr. til tækjakaupa hjá sömu stofnunum. HSS fékk 54 m.kr. úr þeim potti og svo 28 m.kr. til tækjakaupa. Við fengum einnig sjö langþráð dagdvalarrými í Reykjanesbæ. Þar af eru þrjú almenn dagdvalarrými og fjögur fyrir fólk með heilabilun.
 
Sérstakar aðstæður
Auðvitað hefði ég viljað sjá fleiri krónur fara til stofnana á Suðurnesjum. Þó að skilningur hafi aukist innan embættismannakerfisins á aðstæðum hér suður með sjó, þá er hann enn ekki nægur. Við stöndum ekki bara frammi fyrir mestu fólksfjölgun sem sögur fara af, heldur erum við einnig með sérstaka íbúasamsetningu, þar sem fjórðungur íbúa er af erlendu bergi brotinn. Einnig er ekki horft nægilega til þess hversu margir fara um flugstöðina á hverjum sólarhring sem hefur t.a.m. stóraukið álag á löggæslu og sjúkraflutninga. Þessi staða kallar á að við sem hér búum stöndum enn þéttar saman og höfum hátt. 
 
Árangur
Stundum finnst manni baráttan fyrir hagsmunum svæðisins okkar ganga allt of hægt. En þá má maður ekki gleyma að horfa á litlu sigrana. Eitt skref í rétta átt var að koma inn í texta fyrir fimm ára fjármálaáætlun (sem er ramminn fyrir málasvið ráðuneyta í fjárlögum ár hvert) um taka skyldi tillit til aðstæðna á svæðum. En textinn er á þessa leið:
 
"Fordæmalaus fjölgun íbúa á Suðurnesjum og fjölgun ferðamanna um land allt kallar á skoðun á því hvort fjárveitingar geti í ríkari mæli færst á milli svæða. Meiri hlutinn beinir því til heilbrigðisráðherra að gera endurskoðun fjárveitinga gagnsærri en verið hefur og upplýsa um þá þætti sem ráða úthlutun fjármuna. Þar þarf sérstaklega að horfa til íbúaþróunar á Suðurnesjum þar sem heilbrigðisframlög á íbúa eru lægri en annars staðar á landinu."
 
Baráttan heldur áfram. Ég vona að þið hafið öll notið sumarsins. Sjáumst á Ljósanótt!
 
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
alþingismaður.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024