Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sterk staða í samgöngumálum
Mánudagur 6. apríl 2009 kl. 00:41

Sterk staða í samgöngumálum

Bein útsending nefndarfunda Alþingis með ráðherra er góð nýbreytni. Þarna gefst löggjafarvaldinu færi á að spyrja framkvæmdavaldið milliliðalaust um hvaðeina sem málaflokkum viðkomandi ráðherra tengist fyrir sjónum allrar þjóðarinnar. Í morgun [föstudagsmorgun] sat ég annan slíkan í þessari viku. Opinn fund samgöngunefndar sem Steinunn V. stýrði af skörungsskap miklum. Á fundinum kom skýrt fram hvað staðan í samgöngumálum er myndarleg og nú fer í hönd annað mesta framkvæmdaár Íslandssögunnar í samgöngumálum.

 
Eitt af því sem stendur upp úr er breikkun og tvöföldun Suðurlandsvegar. Fyrsti áfangi boðinn út í sumar, frá Lögbergsbrekku að Kaffistofu. Þetta er eitt brýnasta umferðaröryggismál landsins. Nú verður loks breikkað og skilið á milli akgreina alla leið frá Reykjavík á Selfoss. Stuttur kafli yfir heiðina verður til að byrja með 2 plús einn með breiðu sniði en allt hitt strax 2+2. Heiðin verður þannig gerð úr garði að auðvelt verður að bæta fjórðu akgrein við þegar umferðarþungi vex. Þetta er góð niðurstaða og mikilsvert að verkefnið var ekki sett til hliðar í samdrættingum heldur verður að veruleika. Framkvæmdin er upp á 16 milljarða og er því ein af stærstu fjárfestingum sem á vettvangi samgöngumála sem í hefur verið farið og að sama skapi mikilvæg.
 
Fjöldamargt fór ráðherra yfir af verkum í framkvæmd eða á framkvæmdastigi og mætti lengi upp telja. Lagning Suðurstrandavegar og útboð á síðari áfanga hans á næstunni er eitt af stóru verkefnunum sem nú loks verða að veruleika eftir áralanga frestun. Þetta margfrestaða mál er nú loks fram að ganga. Þetta er vanmetin vegaframkvæmd sem mun skipta miklu fyrir svæðið allt. Þetta er tiltölulega ódýr vegur sem hefur mikil áhrif til bóta í atvinnu- og samgöngumálum. Nú hillir undir lok á þessu verki og það kom skýrt fram hjá ráðherra í morgun. Útboð á brú yfir Hvítá við Bræðratungu er annað margsvikið mál sem nú verður ráðist í. Tímamótamál sem sameinar stór búsetu svæði í Uppsveitum Árnessýslu og kemur í framhaldi af nýjum vegi yfir Lyngdalsheiði.
 
Höfn í Bakkafjöru og nýr Herjólfur sem styttir siglingatíma á milli lands og Eyja niður í 20 mínútur er ein af stærstu framkvæmdunum sem nú er unnið að. Vesturlandsvegur verður einnig breikkaður og framhald er á samgöngubótum á Vestfjörðum þar sem vegamál hafa nú verið verst á landinu öllu. Þá verða tæplega 2000 bæir í dreifbýli háhraðatengdir. Það er áríðandi mál sem verður til þess að búsetuskilyrði í dreifbýlinu taka stakkaskiptum og raunverulegur valkostur til búsetu fyrir ungt fólk. Myndarleg staða hjá sókndjörfum samgönguráðherra og mörg mannaflsfrek verkefni innan borðs sem koma á besta tíma nú þegar saman dregur á öðrum sviðum.
 
Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024