Stendur til að einkavæða opinbera þjónustu?
Ég gef kost á mér í eitt af efstu sætum framboðslista Samfylkingarinnar í opnu prófkjöri 23. febrúar. Undanfarið hef ég kynnt helstu stefnumál mín á vefsetri mínu, www.islandia.is/skulthor og í Víkurfréttum. Í kjölfarið hef ég verði spurður hvort ég ætli að einkavæða opinbera þjónustu. Svarið er nei, en málið þarfnast þó skýringa, segir Skúli Thoroddsen í grein til Víkurfrétta. Velferðarkerfið stendur á þýðingarmiklum tímamótum. Það eru auknar kröfur og væntingar almennings um frekari þjónustu samtímis því sem opinber útgjöld verða að vera undir ströngu aðhaldi. Skapa þarf ný tækifæri til að takast á við og sigrast á nýjum viðfangsefnum og tryggja raunverulega ávinninga opinberrar þjónustu og þar með lífsgæði. Ég legg áherslu á að stofnanir sem reknar eru af sveitarfélaginu fái aukið sjálfstæði og axli um leið aukna ábyrgð á þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að veita. Ef einkarekstur þjónar einnig þessum tilgangi, t.d. rekstur sjálfseignarstofnana eins og MSS, er sjálfsagt fara þá leið. Rekstrarform skyldi aldrei útiloka eingöngu formsins vegna. Aðalatriðið er að ná fram ýtrustu hagkvæmni í rekstri um leið og þjónusta við íbúana verður betri og tilkostnaður minni fyrir skattborgarana.
Bæjarbúar eiga að hafa áhrif á skipulag opinberrar þjónustu, einkum þeir sem þurfa á henni að halda. Málefni fatlaðra eru t.d. enn í höndum ríkisins, en Þroskahjálp á Suðurnesjum er mikilvægasta einkarekna aflið í þágu fatlaðra. Opinberir aðilar eiga þess vegna að styðja vel við starfsemina og gera við hana þjónustusamninga. Sama á við um SÁÁ, Krabbameinsfélagið, íþróttafélögin o.s.frv. Þótt heilsugæslan sé enn í höndum ríkisins tel ég eðlilegra að hún lúti stjórn þeirra sem nota þjónustuna, þ.e. bæjarbúa. Það erum við, bæjarbúar, sem vitum best hvernig opinbera þjónustu við viljum hafa. Það ætti þess vegna að vera okkar mál að annast velferðarkerfið á sem flestum sviðum. Þetta helst í hendur við atvinnulífið. Eftir því sem fleiri störf skapast og framleiðni eykst í einkageiranum, því auðveldara ætti að vera að útvega fé til að bæta og þróa velferðarsamfélagið eftir þeim leiðum sem bestar eru hverju sinni.
Aldrei má missa sjónar á þeirri hugsjón að velferðarþjónustan er til fyrir fólkið, félagslegt öryggi þess og jafnrétti. Velferðarkerfið er ekki til að hagnast á því í eiginhagsmunaskyni. Það er til fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda, okkur öll. Trúr þessari sannfæringu, mun ég leggja áherslu á félagslegar umbætur þar sem einkarekstur kemur meðal annars opinberri þjónustu til góða, eftir því sem við á. Reykjanesbær verður að geta boðið öfluga samfélagþjónustu sem gerir það eftirsóknarvert að búa hér og starfa. Fyrir því mun ég berjast.
Skúli Thoroddsen.
Höfundur er forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum
Bæjarbúar eiga að hafa áhrif á skipulag opinberrar þjónustu, einkum þeir sem þurfa á henni að halda. Málefni fatlaðra eru t.d. enn í höndum ríkisins, en Þroskahjálp á Suðurnesjum er mikilvægasta einkarekna aflið í þágu fatlaðra. Opinberir aðilar eiga þess vegna að styðja vel við starfsemina og gera við hana þjónustusamninga. Sama á við um SÁÁ, Krabbameinsfélagið, íþróttafélögin o.s.frv. Þótt heilsugæslan sé enn í höndum ríkisins tel ég eðlilegra að hún lúti stjórn þeirra sem nota þjónustuna, þ.e. bæjarbúa. Það erum við, bæjarbúar, sem vitum best hvernig opinbera þjónustu við viljum hafa. Það ætti þess vegna að vera okkar mál að annast velferðarkerfið á sem flestum sviðum. Þetta helst í hendur við atvinnulífið. Eftir því sem fleiri störf skapast og framleiðni eykst í einkageiranum, því auðveldara ætti að vera að útvega fé til að bæta og þróa velferðarsamfélagið eftir þeim leiðum sem bestar eru hverju sinni.
Aldrei má missa sjónar á þeirri hugsjón að velferðarþjónustan er til fyrir fólkið, félagslegt öryggi þess og jafnrétti. Velferðarkerfið er ekki til að hagnast á því í eiginhagsmunaskyni. Það er til fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda, okkur öll. Trúr þessari sannfæringu, mun ég leggja áherslu á félagslegar umbætur þar sem einkarekstur kemur meðal annars opinberri þjónustu til góða, eftir því sem við á. Reykjanesbær verður að geta boðið öfluga samfélagþjónustu sem gerir það eftirsóknarvert að búa hér og starfa. Fyrir því mun ég berjast.
Skúli Thoroddsen.
Höfundur er forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum