Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 30. janúar 2003 kl. 10:24

Stendur til að einkavæða heilsugæsluna?

Árni Ragnar Árnason leiðtogi sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi skrifar grein í Morgunblaðið 21. janúar um framtíð heilsugæslu á Suðurnesjum. Árni mælir eindregið með að menn taki höndum saman við þá lækna sem vilja koma til Suðurnesja að „byggja upp læknastofur og taka að sér fjölþætta heilsugæslu og heilbrigðisþjónustu.” Hann telur réttilega að vel búnar læknastofur geti sinnt þjónustunni jafn vel og ríkisreknar stofnanir. Árni tali tæpitungulaust. Það læðist að manni sá grunur að nú sé lag að opna leið fyrir einkarekstur í heilsugæslunni í ágóðaskyni til að höggva á þann hnút sem málefni HSS eru föst í. Á sama tíma og Árni opnar sig, skrifar Sigríður Snæbjörnsdóttir framkvæmdastjóri HSS grein í VF 23. janúar og fullyrðir að verið sé að vinna að sérfræðilæknalausnum „á ýmsum sviðum” og „framtíðarstefnumótun stofnunarinnar, og hvert framtíðarhlutverk hennar skuli vera.” Þetta segir Skúli Thoroddsen í grein til Víkurfrétta.Það sem er merkilegt við þessi ummæli er sú staðreynd að heimamenn koma þar hvergi nærri svo vitað sé. Til að undirstrika hvað okkur kemur þetta ekki við er búið að samþykkja í kyrrþey að leggja stjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja niður af ráðherra og er lagafrumvarp þess efnis í farvatni Jóns Kristjánssonar. Vinnubrögð stjórnvalda í málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vekja athygli og viðbrögð um landið. Læknaráð Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi undrast sérstaklega í ályktun yfir „framgangi stjórnvalda og stjórnenda HSS í tilraun þeirra til þess að leysa vanda HSS á Suðurnesjum” og að „hugmynd að 7 – 8 heimilislæknar sinni 17 þúsund íbúum er fráleit og lýsir skilningsleysi stjórnenda HSS á Suðurnesjum á eðli heilsugæslu” segir í ályktun læknaráðsins.
Það ófermdarástand sem ríkir í málefnum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er afleiðing langvarandi vanda í heilbrigðismálum. Til þess að taka á vandanum þarf þverfaglegar aðgerðir og samhæfðar lausnir undir stjórn heimamanna og í þágu heimamanna, þar sem áhugasamtök og aðilar vinnumarkaðarins koma einnig að málinu. Sjúklingar verða að hafa aðgang að heilsugæslulæknum. Frumheilsugæslan er anddyrið að skilvirku heilbrigðiskerfi. Hún er mun ódýrari fyrsti kostur en sérfræðilæknisþjónusta. Öflug frumheilsugæsla er skynsamleg og hana verður að efla. Einkareknar læknastofur í ágóðaskyni eins og Árni Ragnar mælir með eða sérfræðilæknalausnir fyrir heilsugæsluna sem Sigríður segir að leysa muni vanda heilsugæslunnar eru fégræðgilegar hugmyndir og hvorki í anda samfélagslegra viðhorfa né jafnréttisviðhorfa um heilbrigðisþjónustu. Þvert á móti.
Það þarf að efla heilsugæsluna. Fara má nýjar leiðir sem taka á vandanum í þágu fólksins og þeirra sem þurfa að nota þjónustuna, en ekki þeirra sem vilja hagnast á að selja læknisþjónustu. Það má gera með því að setja á laggirnar sjálfseignarstofnun, sem yfirtekur rekstur HSS með þjónustusamningi við ríkið. Félög launþega á Suðurnesjum, sveitarfélögin, félag eldri borgara og samtök sjúklinga þyrftu að koma að slíkri stofnun. Sjálfseignarstofnun nýtir hagkvæmi og hagræði einkarekstrar. Hagnaður af reglulegri starfsemi fer til stofnunarinnar sjálfrar og nýtist í hennar þágu. Þetta form á vel við í heilbrigðisþjónustu og hefur reynst vel við afmörkuð verkefni t.d. hjá SÁÁ og á Reykjalundi. Slík stofnun í höndum heimamanna tryggir jafnrétti til heilsugæslu og hefur frumkvæði til heilsueflingar og forvarna. Umfarm allt lýtur hún aðhaldi, stefnumörkun og forsjá okkar sjálfra í samráði við heilbrigðisstéttir og heilbrigðisyfirvöld. Tökum málin í okkar hendur!

Skúli Thoroddsen, lögfræðingur og íbúi á Suðurnesjum
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024