Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Stelpur! Förum í fótbolta
Höfundur greinar, Björg Ásta Þórðardóttir í leik með Keflavík.
Miðvikudagur 14. ágúst 2013 kl. 13:30

Stelpur! Förum í fótbolta

Nú er nýliðið Evrópumót landsliða sem haldið var í Svíþjóð. Ísland átti þar flotta fulltrúa sem stóðu sig vel og hefur íslenskt landslið í raun aldrei gert betur á stórmóti í knattspyrnu.  Grundvöllur þessa árangurs er þrautseigja og dugnaður þeirra einstaklinga sem spiluðu leikina og þeirra sem séð hafa um umgjörð knattspyrnunnar á Íslandi, og þá ekki síst félagsliðanna.  Flestir leikmenn sem spiluðu umrædda leiki og tóku þátt í mótinu spila þó ekki hérlendis heldur starfa við að spila knattspyrnu á erlendri grundu, svipað og hjá karlalandsliðinu.

Það þarf ekki að líta langt aftur í tímann til að sjá kvennalandslið sem samanstóð eingöngu af áhugamönnum. Þróunin hefur verið ör og íslenskir leikmenn sækja æ meir í að spila erlendis fyrir stór og öflug lið, í bestu deildum Evrópu. Þessi þróun hefur einnig haft áhrif á íslensk félagslið. Gerðar eru meiri kröfur til gæða og utanumhalds í íslenskri knattspyrnu. Stúlkurnar eru farnar að átta sig á eigin verðleikum og möguleikum, og samfélagið líka. Þannig gera stelpurnar kröfu um betri aðstöðu og umgjörð og um leið gerir samfélagið kröfu um betri árangur og metnað.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Suðurnesin fara ekki varhluta af þessari þróun. Af þeim sökum, í þeirri viðleitni til að byggja upp öflugt knattspyrnulið á Suðurnesjum, hefur verið lögð fram byltingarkennd hugmynd. Nýstárleg hugmynd hérlendis en rótgróin hugmynd erlendis. Lagt hefur verið til að stofnað sé nýtt knattspyrnufélag, eingöngu skipað kveniðkendum. Margir velta því eflaust fyrir sér hvort í raun sé þörf á slíku félagi á þessu svæði enda sé hér nóg af knattspyrnufélögum. Svarið er, það er einfaldlega þörf á slíku félagi á Íslandi. Þetta er skrefið sem mikilvægt er að taka til að leiða þá þróun sem að framan er lýst. Þessi sama þróun hefur átt sér stað á Norðurlöndunum og eitt þeirra landa var nálægt því að hampa Evrópumeistaratitlinum í sumar. Þar hefur það gefist vel að reka kvennaknattspyrnu og karlaknattspyrnu sér – jafnvel í sitthvoru félaginu.

Í kjölfar þess fundar sem haldinn var þann 25. mars sl., og var grundvöllur skrifa minna þann 8. apríl sl., fór af stað mikil vinna við að skoða grundvöll þess að starfrækja knattspyrnufélag fyrir konur á Suðurnesjum. Niðurstaðan úr þeirri vinnu liggur nú fyrir og er aðallega þrennt sem mælir með því að slíkt félag sé stofnað.
Í fyrsta lagi er það rekstrarlega hagkvæmt. Það er einfaldlega staðreynd að erfitt er að halda úti knattspyrnudeildum á svæðinu fyrir stúlkur þar sem aðsókn í íþróttina er dræm. Lausnin liggur í því, að í stað þess að hafa margar fámennar deildir sem halda utan um kvenkynsiðkendur þá yrði ein stór heild mynduð. Með því móti skapast hagkvæmni í rekstri kvennaknattspyrnunnar enda að sjálfsögðu krafa að umræddar deildir geti rekið sig með góðu móti.

Í öðru lagi þá vinnur það gegn brottfalli stúlkna úr knattspyrnu. Það er mikið brottfall úr kvennaknattspyrnu á svæðinu og eru ástæður þess margvíslegar. Engin ein töfralausn er til í þeim efnum. Með því að skapa aðstæður fyrir stúlkur, óháð búsetu, til að spila knattspyrnu í öflugu félagi og veita þeim þann félagslega stöðugleika sem þær skortir þá er hægt að vinna gegn brottfallinu.

Í þriðja lagi er með umræddu félagi gert betur við þá iðkendur sem stunda knattspyrnu á svæðinu. Félagið yrði algjörlega sniðið að þörfum stúlkna og þarfir þeirra ávallt hafðar að leiðarljósi þegar teknar eru ákvarðanir í tengslum við rekstur félagsins. Rekstur knattspyrnunnar verður einfaldlega gerður kvenlægur. Það er öllum ljóst sem hafa fylgst með knattspyrnu á Íslandi að sú staða er ekki uppi í dag. Umrætt félag yrði brautryðjandi á þessu sviði.

Það er engin launung að bregðast þarf við þeim aðstæðum sem eru uppi á Suðurnesjum, og þess vegna víðar á Íslandi. Það eru fáar stúlkur, hlutfallslega, sem æfa knattspyrnu og jafnvel íþróttir yfirhöfuð. Það þarf að þora að prófa eitthvað nýtt og hafa kjark til að horfast í augu við staðreyndir.
Við búum í öflugu samfélagi sem samanstendur af öflugu fólki og þá ekki síst öflugum stúlkum. Það eru allir burðir til að skapa hér frábæra aðstöðu fyrir stúlkur til að stunda knattspyrnu og gefa þeim tækifæri til að ná umtalsverðum árangri í þeirri íþrótt – vinna titla, spila fyrir Íslands hönd og/eða verða atvinnumenn. Stofnun félags sem sinnir öllum kveniðkendum á svæðinu, undir einu félagi sem nýtur gríðarlegs stuðnings samfélagsins og sveitarfélaga, er fyrsta skrefið í þá átt.

Verum því sanngjörn og sýnum báðum kynjum jafnræði. Þorum að taka skrefið til fulls og höldum áfram að þróa íslenska knattspyrnu.

Björg Ásta Þórðardóttir