Steindu gluggarnir í Keflavíkurkirkju
Þegar horft er yfir nærri aldarlanga sögu Keflavíkurkirkju má sjá að margsinnis hefur samfélagið í kringum kirkjuna staðið fyrir endurbótum á þessum helgidómi. Ekki þarf að undra þar sem álagið á húsnæðinu er mikið, þar er gestkvæmt með eindæmum og veðurfarið hefur sitt að segja hérna við sjávarsíðuna.
Þegar gengið er um kirkjuskipið í núverandi mynd blasir við okkur hönnun og handbragð, einkum frá lokum sjöunda áratugarins þegar skipt var um allar innréttingarnar í kirkjunni. Mikill framfarahugur einkenndi allt það starf, en ekki var litið til upprunalegrar hönnunar. Gylltu ljósahjálmarnir í loftinu lentu í ónáð og gamli predikunarstóllinn sem upphaflega var smíðaður í gömlu kirkjuna við Hafnargötuna var talinn úreltur. Þessu tókst þó að bjarga. Byggðarsafnið fékk stólinn til varðveislu en ljósakrónurnar voru fljótt settar aftur upp í staðinn fyrir plastið sem þar hékk um tíma og gárungarnir kölluðu „þvolbrúsana“. Nú er stóllinn geymdur í safnaðarheimilinu og senn verður honum komið fyrir að nýju í kirkjuskipinu.
Það stendur mikið til í kirkjunni. Hún verður aldargömul eftir aðeins þrjú ár, þann 14. febrúar 2015. Nú á að horfa aftur til upprunans og innrétta hana í þeim anda sem líkist því sem var þegar Rögnvaldur Ólafsson hannaði þessa nýklassísku byggingu, með stílhreinum einföldum línum, vönduðum innréttingum og birtu sem flæddi inn um gluggana.
Já, birtan á að flæða inn í kirkjuna eins og upphaflega var gert ráð fyrir. Steindu gluggarnir sem settir voru upp áratug eftir þessar breytingar verða teknir niður og þeim verður komið fyrir annars staðar. Í fyrstu verða þeir hafðir í geymslu en jafnvel kemur til greina að finna einhverjum þeirra, annan stað þar sem þeir munu njóta sín, þá væntanlega í safnaðarheimilinu.
Sú ákvörðun að fjarlægja steindu gluggana er líklega sú erfiðasta í öllu ferlinu. Gluggarnir voru gjöf frá einstöku fólki sem vildi kirkjunni sinni allt hið besta og enginn ætti að draga í efa það þakklæti sem við berum til þess.
Ástæðurnar fyrir því að steinda glerið verður fjarlægt eru hins vegar þessar:
• Gluggarnir standa fyrir innan rúðugler sem þýðir að ekki þarf að setja nýtt gler í staðinn. Vegna þessa hafa þeir hins vegar ekki notið sín sem skyldi og birtan fellur ekki beint á þá heldur fer hún í gegnum rúðurnar sem eru þar fyrir utan.
• Þótt gluggarnir verði teknir niður mælir ekkert gegn því að setja þá aftur upp í ljósi þess að nýtt gler verður ekki sett í staðinn.
• Vegna málningarvinnu við kirkjuna hefði þurft að taka þá niður einfaldlega til þess að hlífa þeim. Gera þarf við múrinn, lagfæra sprungur og mála bak við steinda glerið.
• Hönnunin eftir Benedikt Gunnarsson hefur enga skírskotun í sögu kirkjunnar eða útlit hennar að öðru leyti. Kirkjur í þessum anda eru þvert á móti hannaðar fyrir gegnsætt gler enda er hugsunin sú að birtan berist að utan inn í kirkjurýmið, ólíkt til dæmis gotneskum kirkjum þar sem leitast er við að skapa sem sterkastar andstæður milli innanrýmis kirkjunnar og umhverfisins.
• Vegna hins steinda glers er ekki hægt að koma fyrir opnanlegum fögum í gluggunum. Þetta hefur verið bagalegt svo ekki sé fastar að orði kveðið. Með þessum breytingum mun ekki bara birtan leika um kirkjurýmið heldur einnig ferskt loft sem kirkjugestir, ekki síst í fjölmennum athöfnum eiga eftir að njóta af.
Við vonum að bæjarbúar og aðrir velunnarar kirkjunnar skilji sjónarmið þau sem hér hefur verið lýst. Þær breytingar sem framundan eru í kirkjunni ber að skoða í ljósi þess hversu oft hefur verið staðið að endurbótum á henni. Þær eru í raun eðlilegt viðhald en vegna þeirra tímamóta sem framundan eru, verður í þetta skiptið leitast við að endurskapa það útlit sem upphaflega var á kirkjuskipinu. Við hvetjum fólk til þess að fylgast með því hvernig kirkjan mun taka á sig þann svip sem var á henni eftir að eldhugar höfðu reist þennan helgidóm fyrir bráðum hundrað árum.
Skúli S. Ólafsson
Sóknarprestur í Keflavíkurkirkju