Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Stefnuskrá Reykjanesbæjarlistans lögð fram
Fimmtudagur 11. maí 2006 kl. 16:12

Stefnuskrá Reykjanesbæjarlistans lögð fram

Reykjanesbæjarlistinn er baráttuframboð sem mun koma með ferskan blæ inn í bæjarpólitíkina og leggja megin áherslu á atvinnumálin, segir í nýrri stefnuskrá framboðsins, sem lögð var fram í dag.

Reykjanesbæjarlistinn styður fyrirhugað álver í Helguvík og vill ekki sjá neina leigusamninga með fyrirvörum heldur að tryggt verði fyrir næstu alþingiskosningar að álverið rísi.

Reykjanesbæjarlistinn vil beina því til stjórnvalda að vegna brotthvarfs hersins verði leyfðar frjálsar krókaveiðar smábáta við Reykjanesið allt að 6 sjómílur út og svæðið lokað öllum öðrum veiðarfærum. Þessi heimild verði aðeins veitt þeim aðilum sem skráðir eru og landa aflanum á svæðinu.

Reykjanesbæjarlistinn leggur áherslu á að í samningum við Bandaríkjamenn fáum við full afnot af olíubirgðastöðinni í Helguvík og fáum að anna eldsneytisþörf Keflavíkurflugvallar og Suðurnesja í heild sinni.

Reykjanesbæjarlistinn vill innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar og alla starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja.

Reykjanesbæjarlistinn vill hægja á frekari lóðaúthlutunum þar til jafnvægi í atvinnumálum næst.

Reykjanesbæjarlistinn vill leggja niður Samband Sveitarfélaga á Suðurnesjum og sameina Suðurnesjabyggðir í eitt sterkt sveitarfélag til mótvægis við höfuðborgarsvæðið.

Reykjanesbæjarlistinn vill standa vörð um hlutabréfaeign Reykjanesbæjar í Hitaveitu Suðurnesja.

Reykjanesbæjarlistinn vill gjaldfrjálsan leikskóla í áföngum.

Reykjanesbæjarlistinn vill að fólk með lágar tekjur fái tækifæri til að sækja sér vinnu inn á höfuðborgarsvæðið og verði styrkt af bæjarfélaginu til þeirra ferða. Lágar tekjur eru laun lægri en
170.000,- krónur á mánuði.

Reykjanesbæjarlistinn vill að farið verði gaumgæfilega ofan í verklagsreglur fjölskylduþjónustunnar.
Til dæmis að meðlagsgreiðendur verði skilgreindir sem framfærendur barna sinna.

Reykjanesbæjarlistinn vill aðlaga grunnskólana enn frekar að þörfum barnanna og sérstaklega líta til með þeim sem eiga erfitt uppdráttar.

Ofanritað er ekki tæmandi upptalning baráttumála Reykjanesbæjarlistans.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024