Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Stapinn í Njarðvík
Miðvikudagur 29. ágúst 2007 kl. 09:20

Stapinn í Njarðvík

Ég lét mig hafa það að hlusta á Ljósanæturlagið 2007 á netinu. Ekki ætla ég að setja neitt út á lagið en textinn á betur heima sem hvatningarlag fyrir Íþróttafélagið Keflavík en fyrir bæjarfélagið Reykjanesbæ. Það vekur auðvitað furðu að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ skuli velja að hygla einu hverfi bæjarins umfram önnur á sérstakri hátíð sem hugsuð er fyrir alla bæjarbúa.

 

Mér hefur fundist að gamlir Keflvíkingar sem eru í áhrifastöðum í þessu bæjarfélagi eigi erfitt með að sætta sig við að við búum núna í Reykjanesbæ. Í stað þess að vinna með öðrum bæjarbúum að mynda samstöðu í Reykjanesbæ er í sífellu klifað á Keflavík. Það vita þó allir sem unnu við að undirbúa sameiningu Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna  að án nafnabreytingarinnar hefði ekki orðið úr sameiningu þessara bæjarfélaga.

 

Margar stofnanir láta eins og ekkert hafi breyst og kynda undir ríg í bæjarfélaginu. Það hefur t.d. reynst þeim erfitt sem stjórna Sparisjóði Keflavíkur að sjá að þeir eru ekki hverfissparisjóður í Keflavíkurhverfi. Frá þeim glymur alla daga að þetta sé sparisjóðurinn þeirra í Keflavíkurhverfi. Sýslumaðurinn í Keflavík er á sama hátt embættismaður íbúanna á Reykjanesi en kýs að kalla sig áfram Sýslumanninn í Keflavík.  Það er ekki gott þegar nafngiftir stofnanna stjórna þróun þeirra.

 

Nú heyrist frá bæjaryfirvöldum að breyta eigi nafni Stapans í Njarðvík í Hljómahöllina til að hygla sérstaklega keflvískri hljómsveit sem hét sama nafni og gerði garðinn frægan fyrir nokkrum áratugum. Sú hljómsveit var auðvitað góð á sínum tíma þegar hún var upp á sitt besta og spilaði í tónlistarhúsum Njarðvíkinga í Krossinum og Stapanum. Nafnið Stapinn er þó mun þekktara nafn en Hljómar og er engin ástæða til að breyta því þó starfsemin í húsinu breytist og verði meiri að vöxtum. Nafnið Stapinn segir einnig allt um að í því húsi er tónlist og samkomustaður íbúanna þar sem tónlistin er í hávegum höfð. Þess utan var þetta hús byggt af miklum dugnaði og framsýni af Njarðvíkingum. Bara af þeirri ástæðu einni er ástæða til að halda nafninu á lofti og heiðra minningu þessa fólks. Minningu þeirra tónlistarmanna sem hér hafa alist upp á að heiðra sérstaklega í poppminjasafninu sem á að vera í Stapanum.

 

Kristján Pálsson formaður Ungmennafélags Njarðvíkur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024