Staðsetning öryggisvistunar í Innri–Njarðvík
Félagsmálaráðuneytið hefur óskað eftir samstarfi við Reykjanesbæ um öryggisvistun fyrir ósakhæfa einstaklinga. Þann 1. júlí sl. samþykkti bæjarráð að vísa staðsetningu öryggisvistunarinnar til endurskoðunar á aðalskipulagi Reykjanesbæjar og nú liggur fyrir sú tillaga að hálfu meirihluta bæjarstjórnar að staðsetja öryggisvistun í íbúabyggð, nánar tiltekið í Dalshverfi 3, Innri – Njarðvík, skv. vinnslutillögu nýs aðalskipulags 2020 - 2035. Þessi tillaga hefur ekki verið kynnt fyrir íbúum Innri–Njarðvíkur, né hafa íbúar fengið kynningu á eðli þeirrar starfsemi sem fram fer innan veggja öryggisvistunar og ástæður þess að þessi staðsetning var valin.
Öryggisvistun er úrræði sem beitt er á grundvelli almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þegar ákveðið er með dómi í refsimáli eða í sérstöku máli að ósakhæfir einstaklingar sem hafa verið dæmdir í fangelsi skuli sæta tilteknum öryggisráðstöfunum þegar tryggja þarf vistun eða þegar talið er að refsing beri ekki árangur. Um er að ræða einstaklinga sem geta verið mjög hættulegir sjálfum sér og/eða öðrum. Einnig er öryggisvistun beitt þegar ákveðið er í refsidómi eða í sérstöku dómsmáli, að maður skuli sæta öryggisráðstöfunum að lokinni afplánun dóma, þegar um er að ræða einstaklinga með síendurtekna hættulega hegðun sem teljast hættulegir samfélaginu fái þeir að ganga lausir að lokinni afplánun. Þetta er sá hópur sem þarfnast sérstakrar þjónustu auk öryggisvistunar til að tryggja að þeir brjóti ekki aftur af sér.
Í skýrslu velferðarráðuneytisins um öryggisgæslu og öryggisráðstafanir á Íslandi sem kom út í júní 2016 er bent á að engar verklagsreglur eru til staðar, hvað þá lagaheimildir, sem skilgreina hlutverk og aðkomu ríkis og sveitarfélaga að framkvæmd þjónustunnar. Frá þeim tíma sem skýrslan kom út hefur engin breyting orðið þar á og lagafrumvarp um málaflokkinn ekki verið lagt fram. Þegar ákvæðum almennra hegningarlaga laga sleppir er ekki að finna nánari ákvæði um hvernig öryggisvistun skuli háttað. Þannig er með öllu óvíst að fullnægjandi lagaheimildir séu til staðar sem tryggja nauðsynlega innviði og ytri stoðþjónustu slíkrar öryggisvistunar, hvernig skuli tryggja öryggi íbúa í nærumhverfinu og með öllu óvíst hvernig kostnaði skuli skipt milli ríkis og sveitarfélaga. Það skýtur því skökku við að bæjarstjórn Reykjanesbæjar álítur að ekki þurfi að kynna viðkomandi starfsemi fyrir íbúum fyrr en að loknu staðarvali.
Þann 6. september 2021 var íbúaráð stofnað af íbúum Innri–Njarðvíkur sem hefur það að markmiði að vinna að hagsmunum íbúum hverfisins og hefur íbúaráð skilað athugasemdum við tillögu að endurskoðun á aðalskipulagi 2020–2035. Meirihluti íbúaráðs Innri–Njarðvíkur leggst alfarið gegn því að öryggisvistun verði staðsett svo nálægt íbúabyggð eins og gert er ráð fyrir samkvæmt tillögu meirihluta bæjarstjórnar við endurskoðun á aðalskipulagi Reykjanesbæjar, þegar ekki er til staðar heildstæð löggjöf sem tekur á málefnum öryggisvistunar eða tryggir viðunandi umgjörð utan um rekstur slíks úrræðis. Íbúaráð Innri–Njarðvíkur bendir jafnframt á að nú þegar hafa tæplega 1000 manns sett nafn sitt á undirskriftarlista þar sem því er mótmælt að öryggisvistun verði svo nálægt íbúabyggð eins og endurskoðun á aðalskipulagi gerir ráð fyrir. Um er að ræða málefni sem þarf að fara kynningarferli og samráð áður en ákvörðun um staðsetningu er tekin. Íbúar Innri – Njarðvíkur eiga það skilið.
Hanna Björg Konráðsdóttir
Sigvaldi A. Lárusson
Daníel Ólafsson
Sólrún Auðbertsdóttir
Þorsteinn Stefánsson