Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Staðreyndirnar tala sínu máli
Miðvikudagur 24. apríl 2013 kl. 10:48

Staðreyndirnar tala sínu máli

Nú líður að kosningum og reyna nú öll framboðin að koma sínum stefnumálum og loforðalistum á framfæri.  Umræðan finnst mér þó hafa einkennst af neikvæðni í garð margra þeirra góðu verka sem núverandi ríkisstjórn hefur unnið og komið að.  Langar mig að taka sérstaklega fyrir það sem hefur verið gert og unnið hér á Suðurnesjum.

Hafa sumir andstæðingar ríkisstjórnarinnar gengið hér um og hrópað sig hása af því að segja að ekkert hafi verið gert hér á Suðurnesjum varðandi uppbyggingu á svæðinu.  

Þykir mér því full ástæða sem Suðurnesjamanni, atvinnurekanda og jafnaðarmanni, að benda á nokkur atriði, sem núverandi ríkisstjórn hefur unnið og komið að á okkar svæði.

Af þeim 8 fjárfestingarsamingum sem ríkisstjórnin hefur gert á kjörtímabilinu eru 4 þeirra við fyrirtæki sem eru með starfsemi á Suðurnesjum eða ætla sér að hefja þar starfsemi; gagnaver á Ásbrú, fiskverkun í Sandgerði, kísilver í Helguvík og álver í Helguvík.

Ríkisstjórnin tók ákvörðun 1. mars að ganga til viðræðna við Reykjanesbæ um málefni Helguvíkurhafnar og fjárframlag ríkisins til uppbyggingar þar. Meirihluti sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ tefur málið – kannski vegna þess að það er ríkisstjórn jafnaðarmanna sem vill tryggja uppbyggingu í Helguvík?    

Ríkisfyrirtækið Þróunarfélagið Kadeco  hefur lagt nokkra milljarða í atvinnulífið á Suðurnesjum. Nú starfa 115 fyrirtæki á Ásbrú - gamla varnarsvæðinu.

Atvinnuþróunarfélagi – Heklunni – var aftur komið á á Suðurnesjum árið 2011 að tilstuðlan Kartrínar Júlíusdóttur þáverandi iðnaðarráðherra. Ekkert atvinnuþróunarfélag hafði þá starfað á Suðurnesjum síðan sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ lögðu Markaðs- og atvinnumálaskrifstofu Reykjanesbæjar niður árið 2002.

Frumkvöðlasetrinu Eldey var komið á á Ásbrú – þar sem um 30 frumkvöðlafyrirtæki starfa.

Vaxtarsamningur Suðurnesja var tvöfaldaður frá 2010 – síðan þá hafa um 75 milljónir farið í að styðja mjög fjölbreytt atvinnuverkefni.

40 milljónum var úthlutað 2013 til ýmissa verkefna á Suðurnesjum sem tengjast sóknaráætlun landshlutanna.

Atvinnuleysi hefur minnkað í kjördæminu á kjörtímabilinu. Núna eru t.d. tæplega 1000 Suðurnesjamenn á atvinnuleysisskrá þar sem atvinnuleysi er mest, um 300 færri en á sama tíma fyrir ári og 600 færri en fyrir þremur árum.

Keilir var samningslaus við menntamálaráðuneytið þegar ríkisstjórn jafnaðarmanna hóf störf árið 2009 en hefur nú gert samning til framtíðar með fjármagni miðað við nemendafjölda.  Þetta var gert eftir mikinn þrýsting frá þingmönnum Samfylkingarinnar.

Fisktækniskólinn í Grindavík hefur fengið ákveðið hlutverk sem sterkur hlekkur í keðju menntunar sem brautryðjandi í starfsnámi og styttri starfsbrautum.

Þekkingarsetur Suðurnesja var stofnað með tryggu fjármagni.

Árlegt framlag til Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum hefur verið tryggt.

Fjölbrautaskóli Suðurnesja hefur getað veitt öllum nemendum skólavist sem þangað hafa leitað.

Framkvæmdum er að ljúka við fyrstu nýbyggingu fyrir sjúka aldraða á Suðurnesjum, 60 rúma hjúkrunarheimili á Nesvöllum – eitt af 12 hjúkrunarheimilum sem nú rísa um allt land. Langþráðum tímamótum fyrir eldri borgara á Suðurnesjum er náð og er þetta mikilvæg framkvæmd á mikilvægum tíma fyrir byggingariðnaðinn á svæðinu.

Ríkisstjórnin hefur sett 750 milljónir til kynningar á Íslandi og eflingu ferðaþjónustu, sem skilað hefur sér margfalt til baka með fjölgun ferðamanna til landsins. Hefur þetta haft í för með sér að nú hefur ISAVIA farið af stað með framkvæmdir fyrir 3000 - 4000 milljónir vegna stækkunar flugstöðvar og flughlaða.

Eins og sést á þessari upptalningu hefur heilmargt verið gert hér á svæðinu þrátt fyrir einna mestu efnahagsþrengingar sem þjóðin hefur gengið í gegnum.

Þetta og margt fleira sem hægt væri að nefna sýnir hversu öflugir þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, með Suðunesjakonuna Oddnýju Harðardóttur í framlínunni, hafa verið fyrir okkur á Suðurnesjum.  Þau hafa látið verkin tala – staðreyndirnar tala sínu máli.
 X við S-ið á kosningadaginn 27. apríl næstkomandi.



Ólafur Thordersen, íbúi í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024