Staðreyndir um söluna á „Festi“

 


Það er því miður leiður ávani í íslenskum stjórnmálum að þegar ágreiningur er um hvaða leið á að fara þá segja stjórnmálamenn hálfan sannleikann í von um að kjósendur fallist á þeirra skoðun enda auðvelt að vera sannfærandi þegar vísvitandi er ekki sagt frá öllum staðreyndum. Slíkt má sjá í grein fulltrúa Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Grindavíkur er birtist á heimasíðu Víkurfrétta þann 30. júlí 2012 og verður hér farið yfir þau atriði er þar koma fram.


Sala á hlutabréfum – ekki húseign.

Í fyrsta lagi er kvartað yfir kaupverðinu á Festi, sem er sagt vera 400.000 kr. Hér er vísvitandi sleppt að greina frá því að húseignin Festi er í eigu einkahlutafélags er heitir Víkurbraut 58 ehf. og er í 80% eigu Grindavíkurbæjar. Þetta félag er eigandi fasteignarinnar Festi og skuldar þetta félag Grindavíkurbæ rúmar 26.000.000 kr. Voru því hlutabréfin í þessu einkahlutafélagi seld á 400.000 kr. og samningur gerður við félagið um að greiða 15.000.000 kr. af skuld félagsins við Grindavíkurbæ á næstu 16 árum en það sem eftir stendur verður afskrifað. Ástæðan fyrir þessari niðurstöðu er sú að betra þykir að gefa kaupandanum tækifæri á því að nýta fjármagn sitt í að koma fasteigninni í notkun við fyrsta tækifæri og gefa honum svigrúm til að greiða til baka skuldir félagsins á 16 árum, skuldir sem hefðu annars verið afskrifaðar að fullu. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks sleppir einnig að nefna að í kaupsamningnum er fyrirvari þar sem fram kemur að ef kaupandi nær ekki nauðsynlegum leigusamningum sem eru forsenda fjármögnunar verkefnisins þá falla kaupin niður. En þessi forsenda var einmitt sett í samningin til að tryggja að fjármögnun væri til staðar áður en kaupin yrðu endanleg. Niðurstaðan er sú að heildarfjármagn sem mun skila sér til Grindavíkurbæjar við þennan samning er 400.000 kr. í kaupverð á hlutabréfum í skuldugu félagi og síðan 15.000.000 kr. plús vextir á næstu 16 árum í greiðslu á skuld. Til gamans má geta að húseignin Festi var auglýst tvisvar sinnum til sölu og þá var hæsta tilboð sem barst 15.000.000 kr. Hefði húsið verið selt á því verði hefði samt sem áður þurft að afskrifa sömu upphæð og nú er gert af skuldum félagsins. Hefði því niðurstaðan verið fjárhagslega mjög svipuð fyrir Grindavíkurbæ óháð því hvor leiðin hefði verið farin. Síðan má nefna að við söluna á félaginu er nú kominn greiðandi fyrir fasteignagjöldum sem annars hefðu safnast upp í skuld félagsins við Grindavíkurbæ en fasteignagjöld af Festi er um 2.000.000 kr. á ári.


Festi verður byggt upp sem þjónustu- og gistirými.

Varðandi efasemdir er nefndar eru í grein bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi hvað eigi að gera við Festi þá fylgir viðauki við kaupsamninginn þar sem ítarlega er farið yfir hugmyndir kaupanda á því hvað eigi að gera við húsnæðið, hugmyndir sem hafa verið kynntir öllum bæjarfulltrúum. Breyta á húsnæðinu í þjónustu- og gistirými og eina sem er óljóst er hvernig hlutfallið verður milli þjónusturýmis og gistirýmis. Varðandi athugasemdir bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna um að Festi hafi verið gefið má nefna að Festi hefur nú þegar verið gefið af fyrri bæjarstjórnum a.m.k. tvisvar sinnum án þess að Sjálfstæðismenn hafi andmælt því. Núna voru hlutabréf í Víkurbraut 58 ehf. seld og eigandi félagsins er nú í stakkbúinn til að greiða skuldir félagsins við Grindavíkurbæ ólíkt því sem áður var.


Raunverulegur vilji fyrir íbúakosningu?

Fulltrúi Sjálfstæðismanna kvartar síðan yfir því að ekki hafi verið samþykkt tillaga hans um íbúakosningu um málefnið. Gleymir hann að nefna að þegar tillagan um að selja Festi var fyrst nefnd fyrir rúmlega 18 mánuðum síðan mótmælti hann tillögu fulltrúa G-lista í bæjarráði um að málefnið færi í íbúakosningu enda taldi hann að bæjarstjórn ætti að taka ákvörðun um málið en ekki íbúar enda bæru bæjarfulltrúar ábyrgð á rekstri bæjarins. Einnig má benda á að það var fulltrúi Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem lögðu fram í sameiningu upphaflega tillögu um að selja Festi en Sjálfstæðismönnum snérist hugur um mitt ferli. Nú þegar ljóst var að sex bæjarfulltrúar af sjö í bæjarstjórn voru á öðru máli en hann þá þykir í lagi að krefjast íbúakosningar. Hafi fulltrúi Sjálfstæðisflokks raunverulega viljað hafa íbúakosningu um málið þá hefði hann mætt á bæjarstjórnarfund með fullmótaða tillögu um hvernig íbúakosningin ætti að vera og að hverju ætti að spyrja en ekki samið hana í fundarhlé á bæjarstjórnarfundi.  Ljóst er að spurningin „Á að selja Festi eða á bæjarfélagið að gera það upp“ veitir ekki mikla leiðsögn og hafði sú tillaga hans meðal annars verið felld á öðrum bæjarstjórnarfundi í ljósi þess að hún væri vanreifuð og ólíkleg til að veita bæjarstjórn leiðsögn um hvað nákvæmlega ætti að gera við húsið. Er því ljóst að engin vilji var á bak við tillögu bæjarfulltrúans  um íbúakosningu.


Uppbygging við íþróttamannvirkin eða ráðhús.

Í grein bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna er síðan farið yfir kosti þess að byggja upp sal í Festi í staðinn fyrir sal við íþróttasvæðið og nýtingarmöguleikana á báðum stöðum. Salur við íþróttamannvirkin mun vera mun minni en sá sem yrði í Festi og munu nýtast íþróttahreyfingunni mun betur en salur við Festi. Þarna er verið að byggja upp félagsheimili sem íþróttahreyfingunni sárvantar. Framsóknarmenn hafa aldrei haldið því fram að rekstrarkostnaður á sal við íþróttamannvirkin muni vera lægri en salur í Festi. En við höfum haldið því fram að salur við íþróttamannvirkin muni nýtast mun betur allan ársins hring og því er fjármunum betur varið í uppbyggingu þar. Sem dæmi má nefna að við það að stækka íþróttahúsið aukast tímafjöldi í íþróttasalnum um 1/3 og félagsheimilið sem mun innihalda minni sal nýtist sem fundarstaður fyrir íþróttahreyfinguna, staður fyrir leikmenn í undirbúning fyrir leiki, sem samkomusalur fyrir áhorfendur fyrir leiki þar sem hægt er að grilla líkt og tíðkast nú hjá flestum félögum auk þess sem yngri flokkar geta notað aðstöðu svo eitthvað sé nefnt. Einnig mun kvenfélagið fá skrifstofuaðstöðu í húsnæðinu ásamt afnotum af salnum sem vonandi mun nýtast starfsemi kvenfélagsins fyrir viðburði þeirra, svo sem bingó og sjómannadagskaffi. Þetta eru aðeins lítil dæmi um það hvernig þessi salur getur nýst fjölda fólks í Grindavík, auk þess sem starfsfólk er nú þegar í húsnæðinu við að sinna þörfum íþróttamannvirkjanna.


Betri nýting á fjármunum.

Við teljum að fjármunum sé betur varið í UMFG, Kvenfélag Grindavíkur og almenningsíþróttir í staðinn fyrir húsnæði fyrir stjórnsýsluna og stóran fundar- og veislusal. Sjálfstæðismenn segja að hægt væri að nýta salinn í Festi fyrir bæjarstjórnarfundi, aðra fundi, ráðstefnur og hugsanlega tengt annarri þjónustu verði hún byggð við húsið og að salurinn muni einnig nýtast sem veislu- og samkomusalur líkt og áður. Bæjarskrifstofa Grindavíkur er með fundarsal í dag og hefur aldrei komið fyrir að hann sé of lítill. Einnig þarf bæjarskrifstofa Grindavíkur ekki á því að halda að vera með þrískiptan sal því starfsfólk bæjarins er ekki það fjölmennt að ekki sé hægt að raða fundum þannig niður að einn salur sé fullnægjandi. Af málflutningi Sjálfstæðismanna í þessu máli má sjá að þeir ætla sér að nota salinn í Festi, væri farið eftir þeirra hugmyndum, í beinni samkeppni við önnur salarkynni sem eru í bæjarfélaginu, svo sem í Eldborg hjá HS og sali hjá Bláa lóninu. Verður að telja mjög óvenjulegt að heyra Sjálfstæðismenn tala um að bæjarfélag eigi að fara í samkeppni við einkaaðila. Að auki er vert að nefna að á seinasta kjörtímabili voru 46,9 milljónir settar í að bæta núverandi bæjarskrifstofur Grindavíkurbæjar. Verði núverandi húsnæði selt myndi það aðeins ná upp í þann kostnað sem nú þegar hefur verið sett í húsnæðið, þ.e.a.s. þegar og ef húsnæðið selst þar sem lítil eftirspurn er eftir skrifstofuhúsnæði á annarri og þriðju hæð í Grindavík. Auk þess sem rými er laust á fyrstu hæð sama húsnæðis en hefur ekki verið selt.


Miðbæjarkjarni óháð eignarhaldi húseigna

Að lokum segir fulltrúi Sjálfstæðismanna í grein sinni að varhugavert sé að fara í framkvæmdir um uppbyggingu á miðbæjarkjarna við húsnæði í einkaeigu. Lýsir þetta mikilli vanþekkingu á hlutverki bæjarfélags. Ég efast um að Reykvíkingar sjái eftir þeim fjármunum sem fara í að fegra miðbæ Reykjavíkur þótt flest hús þar séu í einkaeigu. Hafnargatan í Reykjanesbæ er glæsileg og flest hús þar í einkaeigu, miðbæjartorgið á Akureyri er skemmtilegur staður fyrir bæði gesti og heimamenn, samt eru húsin þar í einkaeigu. Miðbær byggist ekki upp í kringum hús í eigu bæjarfélags, miðbær byggist upp í kringum verslun og þjónustu er einkaaðilar veita og ber bæjarfélagi að styðja við slíka uppbyggingu.


Hlutverk Grindavíkurbæjar er fyrst og fremst að þjónsta bæjarbúa og gera Grindavíkurbæ að eftirsóknarverðum bæ til að búa í, meðal annars með því að fegra umhverfið og gera almenningsíþróttum, íþróttafélögum og félagasamtökum hátt undir höfði. Hlutverk Grindavíkurbæjar er ekki að fara í samkeppni við einkaaðila um útleigu á sal fyrir veislur né byggja glæsilegt ráðhús sem mun ekki skila sér í betri þjónustu við bæjarbúa.


Bryndís Gunnlaugsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar í Grindavík og forseti bæjarstjórnar.