Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Staðreyndir um leigugreiðslur Reykjanesbæjar til Fasteignar
Fimmtudagur 30. apríl 2009 kl. 09:57

Staðreyndir um leigugreiðslur Reykjanesbæjar til Fasteignar


Allar tölur sem eru nefndar í þessari grein miðast við að hver Evra kosti 170 krónur og að vísitala neysluverðs sé 336,5 stig. Þá er stofnverð þeirra eigna sem Reykjanesbær leigir af Fasteign 7,6 milljarðar íslenskra króna. Þetta stofnverð mun hækka þegar Hljómahöllin verður tekin í notkun.

Viðskiptasamband Reykjanesbæjar við Eignarhaldsfélagið Fasteign hófst árið 2003 með því að Reykjanesbær seldi nánast allar fasteignir sínar til Fasteignar fyrir 3,5 milljarða íslenskra króna. Nú er svo komið að við borgum Fasteign 1,1 milljarð (1.076 milljónir) á ári í leigu fyrir þær fasteignir sem við erum með á leigu hjá Fasteign. Það tekur okkur því 3,2 ár að borga Fasteign 3,5 milljarða í leigu sem er verðið á þeim eignum sem við seldum félaginu árið 2003.

Með þessari grein fylgir listi yfir þær eignir sem við erum með á leigu hjá Fasteign og hvet ég Víkurfréttir til að birta þennan lista. Sem dæmi um “eign” sem við erum að leigja er körfuboltavöllur (úti) við Holtaskóla sem bæjarstjóri vígði með tilþrifum fyrir nokkru. Fyrir þetta borgum við liðlega 100 þúsund íslenskar krónur á mánuði eða 1,2 milljón króna á ári.

Til að setja þessar leigugreiðslur í samhengi þá jafngilda leigukjör okkar hjá Fasteign því að ef fjölskyldufólk byggi í 20 mkr. íbúð þá þyrftu þau að greiða 2,8 mkr. í leigu á ári eða 236 þkr. í leigu á mánuði. Til viðbótar þyrfti fjölskyldan að sjá um allt viðhald innanhúss, hurðir, rafmagn mála veggi o.s.frv. Þá þyrfti fjölskyldan að greiða fasteigngjöld sem eru ca. 15 þkr. á mánuði auk rafmagns og hita ca. 10-15 þkr. Fastur kostnaður fjölskyldunnar af þessari eign væri því ca. 260 þkr. en þá væri allt innanhússviðhald eftir.

Meðfylgjandi tafla sýnir hvað mismunandi dýrar íbúuðir myndu kosta í leigu hjá Fasteign.

Kostnaðarverð íbúðar    Leiga á ári    Leiga á mánuði
        10.000.000 kr.        1.418.108 kr.           118.175 kr.
        15.000.000 kr.        2.127.163 kr.           177.263 kr.
        20.000.000 kr.        2.836.217 kr.           236.351 kr.
        30.000.000 kr.        4.254.326 kr.           354.527 kr.
        40.000.000 kr.        5.672.434 kr.           472.702 kr.
        50.000.000 kr.        7.090.543 kr.           590.878 kr.
        60.000.000 kr.        8.508.652 kr.           709.054 kr.
        70.000.000 kr.        9.926.761 kr.           827.230 kr.

Ágætu íbúar í Reykjanesbæ, ég geri mér grein fyrir að það eru fleiri hliðar á þessu máli. Auðvitað munum við ávallt þurfa að greiða stóran hluta af tekjum sveitasjóðs til reksturs fasteigna sem eru nauðsynlegar til að bæjarfélagið geti veitt okkur þjónustu sem okkur þykir sjálfsögð. Tilgangur þessarar greinar er fyrst og fremst að upplýsa íbúa um hvernig stórum hluta af útsvari sem við greiðum með vinnu okkar er varið í sveitarfélaginu. Hver og einn getur svo metið hvort hér hafi verið skynsamlega haldið á málum í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Þá vek ég athygli á því að inn í þessum tölum er ekki leiga fyrir Reykjaneshöll og félagsmiðstöðina við Nesvelli ásamt öllum eignum sem við leigjum af öðrum en Fasteign.

Kær kveðja
Eysteinn Jónsson
Bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ fyrir A-listann


Hér að neðan er listinn sem nefndur er í greininni:


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024