Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Staðreyndir ofar slúðrinu
Föstudagur 12. maí 2006 kl. 13:37

Staðreyndir ofar slúðrinu

Í síðustu Víkurfréttum var stutt spjall við frambjóðendur úr Fjölbrautarskóla Suðurnesja. Þar var rætt við Arnar Magnússon frambjóðenda á A – listanum. Þar er á ferðinni ungur og efnilegur drengur, en svör hans vöktu undrun mina.

Arnar er að stíga sín fyrstu skref í stjórnmálum og fagna ég öllu ungu fólki sem ákveður að láta gott af sér leiða til samfélagsins. En Arnar segir í einu svari sínu að hann hafi heyrt að stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins hafi verið samin af nokkrum einstaklingum sem hittust heima hjá bæjarstjóranum. Ég verð að segja að það kann ekki góðri lukku að stýra að hefja sín fyrstu spor í stjórnmálum með því að taka mark á sögusögnum eða slúðri.

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins á sér langan aðdraganda og að henni kom fjöldi íbúa í Reykjanesbæ og það er allt að því móðgun við þá alla að slá fram slíkum aðdróttunum líkt og Arnar gerði.

Í janúar tóku ungir sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ tvo daga í að vinna stjórnmálastefnu félagsins. Allir ungir sjálfstæðismenn höfðu aðgang að þessu málefnastarfi okkar og var vel mætt. Margar góðar hugmyndir komu fram og niðurstaðan var því fjölþætt og góð með hag allra í Reykjanesbæ að leiðarljósi.

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjanesbæ skipulagði málefnanefndir og þar var ég í forsvari fyrir nefnd sem varðandi málefni ungs fólks. Þar komum við ungir stjórnmálastefnu okkar á framfæri. Málefnastarfið fór fram á kosningarmiðstöð Sjálfstæðisflokksins þar sem fjöldi sjálfstæðismanna mættu og komu sínum hugðarefnum að í nefndunum. Eftir að því starfi lauk var boðað til opins fundar á Ránni þar sem allir bæjarbúar höfðu tækifæri á að koma og kynna sér málefnastarfið og koma sínu að. Þar var vel mætt og margar góðar hugmyndir komu frá bæjarbúum sem nú er að finna í stefnuskrá okkar sjálfstæðismanna.

Arnar gagnrýnir einnig að bæjarstjóri noti íbúafundina í kosningarskyni. Árni Sigfússon hefur frá upphafi hitt íbúa Reykjanesbæjar á slíkum fundum. Þar fer hann yfir stöðu sveitarfélagsins í flestum málaflokkum. Þar fá íbúar líka tækifæri (enn og aftur) að koma með tillögur í átt að betra samfélagi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hlustað á íbúa á þessum fundum, enda eru íbúafundirnir stór hluti í íbúalýðræði. Átti bæjarstjórinn að sleppa íbúafundum af því að það er kosningarár? Nei, ég tel að íbúar ættu að fjölmenna til að kynna sér allt sem gert hefur verið í bæjarfélaginu á síðustu árum til að geta áttað sig á því hvað er vænlegasti kosturinn í kjörklefanum 27. maí nk.

Það er mjög mikilvægt fyrir alla í stjórnmálum að hafa staðreyndirnar á hreinu áður en staðhæft er eða látið hafa eftir sér, annað er ávísun á stutta viðveru í pólitíkinni.

Árni Árnason
Formaður Heimis FUS í Reykjanesbæ
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024