Staða atvinnumála í Reykjanesbæ
Undanfarin ár hafa Reyknesingar mátt upplifa það að mörg fyrirtæki hafa lagt upp laupana og hætt rekstri vegna verkefnaskorts. Atvinnuleysi er óvíða meira með þeim vandamálum sem því fylgir fyrir fjölskyldur og ekki síður fyrir fjárhagslega afkomu sveitarfélagsins.
Til eru þeir sem hafa gagnrýnt bæjaryfirvöld fyrir aðgerðarleysi á þessu sviði en það er mikil einföldun því staða atvinnumála á svæðinu á sér dýpri rætur.
Sjávarútvegurinn sem í eina tíð var burðarás í afkomu sveitarfélagsins er að engu orðinn og árið 2006 hvarf Varnarliðið á braut og með því hundruð vellaunaðra starfa. Hið svonefnda hrun hefur síðan ekki bætt úr skák og afstaða ríkisvaldsins til uppbyggingar og fjárfestinga síður en svo liðkað fyrir.
Hvað er framundan
Það verður að segja bæjaryfirvöldum til hróss að þau hafa í erfiðri stöðu leitað leiða til atvinnusköpunar. Margvísleg starfsemi hefur litið dagsins ljós á varnarsvæðinu. Bera þar hæst verkefni á sviði menntamála og uppbygging og rekstur gagnavera er á góðri leið. Þá hefur starfsemi tengd millilandaflugi stóreflst. Ferðamannaiðnaðurinn á svæðinu fer vaxandi og horfur góðar á því sviði. Allt eru þetta atvinnuskapandi verkefni og ber að fagna hverjum áfanga í þeirri viðleitni.
En eftir sem áður vantar Helguvíkina, burðarásinn í atvinnustarfsemina sem í einu vetfangi myndi breyta stöðunni til hins betra með hundruðum varanlegra og vellaunaðra starfa. Uppbygging álversins er þegar hafin en framkvæmdin tafist af ýmsum ástæðum. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafa fyrir sitt leyti barist fyrir framgangi málsins en mætt mótbyr og þá ekki síst vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar til verkefnisins. Er það mat margra að ekki komist skriður á fyrr en með nýrri ríkisstjórn sem setur atvinnuuppbyggingu og auknar fjárfestingar í forgang. Hafi einhver efasemdir um mikilvægi álversins fyrir framtíð og fjárhag sveitarfélagsins og margvíslega uppbyggingu því samfara og á öllum sviðum er vert að líta til álversins á Reyðarfirði. Á sama tíma og öflugur sjávarútvegur á svæðinu hefur dregið úr mannaflaþörf vegna vélvæðingar hefur álverið bætt ríkulega þar úr. Þar starfa um fimm hundruð manns í prýðilega launuðum störfum. Þess utan hafa sprottið upp á svæðinu og blómstra einkarekin fyrirtæki sem þjónusta álverið sem þarf margs við. Er varlega áætlað að um þúsund manns hafi störf beint og óbeint í tengslum við álverið.
Það þarf því ekki að fjölyrða um það hvílík lyftistöng álver í Helguvík yrði fyrir atvinnulífið á svæðinu. Þess vegna verða íbúarnir, allir sem einn, að styðja bæjaryfirvöld með ráðum og dáð í þeirri viðleitni að koma álversmálinu í höfn. Það er ekki einungis um að ræða fjárhagslega afkomu og framtíð einstaklinga og fjölskyldna heldur getu sveitarfélagsins til uppbyggingar og framfara á öllum sviðum mannlífsins.
Lítum okkur nær
Víkurfréttir birtu tíðindi nýlega sem lýsandi eru fyrir ástandið í bænum. Bakaríi var skellt í lás og starfsemi hætt. Viðskiptavinirnir horfnir á braut og rekstrargrundvöllurinn að engu orðinn. Þannig hefur því miður farið fyrir mörgum verslunar- og þjónustufyrirtækjum á svæðinu á undanförnum árum. Í stað þess að versla í heimabyggð og nýta þjónustuna þar þykir mörgum bæjarbúum vænlegra að láta Reykjavíkursvæðið njóta viðskiptanna. Á þessu eru auðvitað margar hliðar en samt sem áður er ekki hægt að halda því fram að þeir hinir sömu stuðli að því að skjóta styrkari stoðum undir atvinnulífið í bænum. En slík gagnrýni á auðvitað ekki við hér heldur hitt sem er mikilvægast, að bæjarbúar standi saman um það markmið að gera góðan bæ betri.
Sigurþór Þórarinsson
rafvirkjameistari