SSS: Ekki tillaga um sameiningu sveitarfélaga
Á stjórnarfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum 13.maí s.l. voru sameiningarmálin til umræðu. Nefnd Félagsmálaráðuneytisins um sameiningu sveitarfélaga hefur óskað eftir því við landshlutasamtök sveitarfélaga að þau komi með tillögur um það hvernig sveitarfélagaskipan á svæðinu þau telji vera heppilegasta. Stjórn SSS vísaði þessu til sveitarstjórna hér á svæðinu og óskaði eftir að fá hugmyndir.
Öll sveitarfélögin 5 hafa nú svarað. Þrjú sveitarfélaganna þ.e. Garður, Sandgerði og Grindavík telja að sú skipan sem nú er sé heppileg og telja ekki nauðsyn á frekari sameiningu. Vogamenn ætla að skoða málið nánar áður en þeir taka afstöðu.Reykanesbær telur sameiningu jákvæða einkum fyrir minni sveitarfélögin.
Stjórn SSS komst að sameiginlegri niðurstöðu. Eftirfarandi var samþykkt samhljóða: „ Í ljósi þeirra svara sem fyrir liggja mun stjórn SSS ekki gera tillögu um sameiningu svitarfélaga að svo komnu máli“.
Hér er um athyglisverða samþykkt að ræða, segir á vef Sveitarfélagsins Garðs og þar er bætt við: „Vandséð verður hvernig nefnd um sameiningu sveitarfélaga ætlar að koma með tillögu um frekari sameiningu sveitarfélaga hér á svæðinu eftir að hafa fengið svona afdráttarlausa samþykkt“.