Spyr sá sem ekki veit?
Ég hef nú undanfarið undrast þá stefnu er mál hafa tekið í sambandi við umræðu um uppbyggingu á Hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ. Og fengið á tilfinninguna eftir samtöl mín við þá sem til þekkja, að málið sé vanreifað og ekki hafi verið leitað allra þeirra lausna sem í boði eru, með framtíðarhagsmuni aldraðra og bæjarins í huga . Því virðast þrír bæjarráðsmenn vera sammála eins og sjá má á atkvæða greiðslu þeirri er fram fór í bæjarráði hinn 13.janúar síðastliðinn. Samþykkt var með tveimur atkvæðum að ganga til viðræðna við Nesvelli um uppbyggingu hjúkrunarheimilis. Sú staða hefur síðan breyst, og ljóst er að fleiri aðilar hafa lýst vilja til að kom að málum.
Saga hjúkrunarheimila undir stjórn DS á Suðurnesjum hefur markast af þeim aðstæðum sem uppi hafa verið hverju sinni, á þann hátt að það húsnæði sem hefur verið til staðar hverju sinni, hefur verið nýtt og byggt við. Garðvangur er gömul verbúð sem hagkvæmt þótti að nýta, Hlévangur er byggður upp í kringum höðinglega gjöf Jóns Guðbrandssonar , þess hins sama og gaf einnig fánastöngina í skrúðgarðinum. Allir hafa verið sammála um að vel hafi til tekist, um leið og ljóst er að þetta húsnæði þarfnast endurnýjunar í takt við kröfur tímans.
Miklar vonir hafa verið bundnar við að ákvörðun ríkistjórnarinnar um uppbyggingu hjúkrunarheimilis fyrir 9. mánuðum síðan gæti orðið til þess að vinna að nokkru leyti bug á því atvinnuleysi er ríkt hefur í byggingariðnaðinum á svæðinu. Enda ákvörðunin að nokkru leyti þannig hugsuð um leið og henni var ætlað að koma til móts við brýna þörf fyrir slíkt dvalarrými. Málið var látið í hendur Reykjanesbæjar, þar sem því miður lítið hefur gerst. Horft hefur verið í eina átt út frá því sem sagt hefur verið að bærinn hefði ekki efni á að leysa til sín þá lóð þar sem fyrirhugað hjúkrunarheimili á að standa. Sá kostnaður hefur verið sagður nema um það bil eitt hundrað milljónum króna.
Og það er þar sem ég set spurningu við málsmeðferðina. Hvers vegna þarf bærinn að leysa til sín land , sem hann hefur þegar yfirráðarétt yfir?
Á sínum tíma fengu Nesvellir úthlutað 58.834 fermetrm lands, sem er það land sem byggingar þeirra standa á nú. Og leigja það land af Reykjanesbæ skv. lóðarleigusamningi af Reykjanesbæ sem á lóðina. Reykjaensbær lagði til allar stofnlagnir að lóðum , og innheimti þar að auki ekki gatnagerðargjöld af svæðinu. Nesvellir greiddu fyrir lóðina kr. 75 milljónir um leið og þeir skuldbundu sig til að flytja knattspyrnuvöll Njarðvíkinga á nýtt svæði. Allt hefur þetta gengið eftir. Ljóst virðist vera skv. þessu að í stað gatnargerðagjalda kom til eingreiðsla upp á 75. milljónir krona.
Eftir því sem komið hefur fram hefur komið myndu Nesvellir sjá um að koma upp hjúkrunarheimili skv. þeim hugmyndum og uppdráttum er fyrir lágu. Hvort eitthvað slíkt samkomulag liggi fyrir á milli DS og Nesvalla veit ég þó ekki , enda væri slíkt í hæsta máta óeðlilegt þegar um er að ræða meðferð á opinberu fé og þjónustu. Til slíkra framkvæmda er eðlilegt að útboð fari fram, þegar og ef í og verður ráðist.
Spurningar mínar nú eru. Er verið að afvegaleiða umræðuna til þess að knýja fram rétta niðurstöðu? Og svo eru það hinar tvær. Er það rétt skilið hjá mér að Reykjanesbær ráði yfir þeirri lóð, þar sem fyirhuguðu hjúkrunarheimili var/er ætlað að rísa?, og sé það rétt hjá mér Hvernig er sá skilningur meðal þeirra sem um hafa fjallað að bygging fullnægjandi hjúkrunarheimilis með framtíðar uppbyggingu í huga, strandi á kostnaði sökum lóðakaupa sem að því að best verður séð enginn grundvöllur er fyrir? Spyr sá sem ekki veit.
Með bestu kveðju
Hannes Friðriksson