Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sporin hræða
Laugardagur 13. maí 2006 kl. 10:01

Sporin hræða

Hvaða framtíð sjáum við íbúar í Reykjanesbæ fyrir okkur? Hvað viljum við fá og hvað viljum við sjá?

Pólitík snýst um að samfélagið sé þannig uppbyggt að allir fái að taka virkan þátt í því sem þar fer fram. Einnig að fá að tjá sig og hafa áhrif á það sem framkvæmt er. Hafa íbúar Reykjanesbæjar fengið að gera það á síðasta kjörtímabili? Svo tel ég ekki vera þar sem einræði hefur ríkt og framkvæmt hefur verið af miklum hraða og ekki virðist vanta fjármagn til framkvæmda. Það styttist í að borga þarf fyrir brúsann. Ekki er hægt að veðsetja fleiri eignir nema þá kannski skuldsettar götur bæjarfélagsins.

D-listinn minntist ekkert á sölu eigna bæjarins fyrir síðustu kosningar
Það var ekki á loforðalista Sjálfstæðismanna að það stæði til að selja eigur bæjarins fyrir síðustu kosningar og því spyr ég mig hvað verður selt næst til að standa undir framkvæmdum? Það er bara ein eign sem einhver verðmæti eru í og það er Hitaveita Suðurnesja. Eitthvað verður undan að láta og má því ætla að hlutur bæjarins í henni komi á sölu fljótlega. Það var allavega ekki lofað að selja hana ekki í loforðalista Sjáfstæðismanna.

Ætlar D-listinn að selja hitaveituna?
Þegar gagnrýni hefur komið fram á framkvæmdagleði og mikil fjárútlát fráfarandi meirihluta Sjálfstæðismanna er henni ekki svarað eða þá eins og oft hefur komið fram í bókunum meirihluta að gagnrýni sem fram hefur komið sé ekki svaraverð. Eru það svörin sem við viljum fá? Það hlýtur að vera sjálfsögð framkoma í lýðræðisþjóðfélagi að svör fáist við spurningum um raunverulega fjárhagsstöðu bæjarfélagsins og um framkvæmdir sem við íbúar að endanum þurfum að standa skil á. Munið að þeir sem fara með stjórn stjórn bæjarfélagsins okkar eru að meðhöndla eigur okkar og fjármagn.

Við sem tökum þátt í starfi A-listans ætlum okkur að hafa lýðræðið í öndvegi og viljum að bæjarbúar taki fullan þátt með okkur í því að gera bæjarfélagið okkar að góðu bæjarfélagi sem öllum líður vel í og vel er gert við háa sem lága. Við viljum hagræða í fjármálum bæjarfélagins svo hægt sé að tryggja nægt fjármagn til félagslegra verkefna og framkvæmda með þáttöku ykkar bæjarbúa.

Við lofum ekki glansmyndum heldur raunverulegum loforðum sem við teljum okkar geta staðið við.

Arngrímur Guðmundsson skipar 10. sæti A-listans í Reykjanesbæ.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024