Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Spennandi  atvinnuverkefni við Njarðvíkurhöfn
Laugardagur 29. ágúst 2020 kl. 11:14

Spennandi atvinnuverkefni við Njarðvíkurhöfn

Við sem búum á Suðurnesjum vitum að hér eru mörg tækifæri fyrir öflugt og skapandi fólk. Hér eru tækifærin.

Nú blasir við okkur afar spennandi tækifæri hvað varðar atvinnuuppbyggingu, það er bygging skipaþjónustuklasa við Njarðvíkurhöfn. Byggja þarf skjólgarð við höfnina svo að þurrkvíin geti orðið að veruleika. Verkefnið getur umbylt aðstöðu til þjónustu við íslenskan og erlendan skipaflota og skapað tugi nýrra starfa hér á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Frumkvæði stjórnenda til fyrirmyndar

Stjórnendur Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur og Reykjaneshafnar eiga heiður skilinn fyrir að hafa tekið frumkvæðið og lagt í umfangsmikinn undirbúning svo að þessi uppbygging í kringum Njarðvíkurhöfn geti orðið að veruleika. Reykjanesbær styður verkefnið og hafa ofangreindir aðilar undirritað viljayfirlýsingu um á uppbygginu hafnar- og upptökumannvirkja í Njarðvík.

Eftirspurn eftir þjónustunni er til staðar

Þjónustuklasinn mun leggja áherslu á þjónustu við skip á norðurslóðum, íslensk sem erlend, til viðhalds, breytinga og endurnýjunar. Auknar kröfur um betri  mengunarvarnir í skipum, skipti yfir í vistvæna orku og lækkun orkukostnaðar, skapa ný tækifæri á þessu sviði. Þjónustuklasinn getur tiltölulega fljótt skapað á annað hundrað störf og samfélaginu umtalsverðar tekjur til framtíðar. Bein vinna í hinni nýju kví kallar á 70–80 heilsársstörf auk óbeinna starfa. Varlega áætlað er gert ráð fyrir að verkefni fyrst um sinn tengd kvínni skapi þannig um 120 störf. Ekki er óraunhæft að ætla að á fáum árum gæti orðið til í Njarðvík þekkingar-klasi í viðhaldi og þjónustu við skip sem teldi um 250–350 bein og óbein störf.

Stuðningur ríkisvaldsins nauðsynlegur

Forsenda þessa verkefnis er að Reykjaneshöfn geri nýjan skjólgarð í Njarðvíkurhöfn sem mun umbreyta allri hafnaraðstöðu þar og skapa möguleika fyrir byggingu kvíarinnar. Til þess að sú forsenda gangi eftir þarf Reykjaneshöfn mögulega að forgangsraða sínum verkefnum í þágu skjólgarðsins.

Nú þegar Skipasmíðastöðin í samstarfi við Reykjaneshöfn og Reykjanesbæ hafa sýnt vilja í verki og farið í mikla undirbúningvinnu og rannsóknir, og átt samtöl við fjárfesta, þá sé ég ekki annað en þingmenn muni styðja fjármögnun skjólgarðsins sem öllum ráðum. Við verðum að finna leiðir til að koma þessu verkefni af stað. Með því munu skapast tugir og hundruðir nýrra starfa. Við Suðurnesjafólk þurfum á þeim að halda.

Áfram veginn!

Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins.