Sparkað í Faðir vorið
- Aðsend grein frá Guðfinni Sigurvinssyni
Maddaman við sjávarkambinn, Keflavíkurkirkja, hefur nú hafið aðra öld í sögu sinni. Það var þrælmerkileg saga sem hún átti á liðinni öld allt frá upphafi þegar stórhuga fámenn byggð fiskimanna reisti sér veglega kirkju sem enn í dag er mikill sómi að. Færir heim sanninn um að vel skal vanda það sem lengi skal standa. Allt frá 1915 hefur Keflavíkurkirkja verið bæði andlegur og veraldlegur viti; sannkallað leiðarljós fyrir samfélagið sem hún þjónar, rétt eins og hún var í augum sjómannanna sem sigldu inn til hafnar í Keflavík. Þegar afi minn og nafni, sem sat um áratugaskeið í bæjarstjórn Keflavíkur og var bæjarstjóri um stutt skeið, sá fram á ævilokin í nóvember síðastliðnum átti hann í því sambandi aðeins eina ósk. Hún var sú að fara heim til Keflavíkur og vera kvaddur þar, það var Keflavíkurkirkja sem hann sá í stafni á leið sinni til friðarhafnar. Svo rótgróin er hún í vitund okkar og sálarlífi; bæði í gleði og sorg, við upphaf og endi lífs en fyrst og síðast er kirkjan alla daga vettvangur samstöðu og samkenndar okkar Keflvíkinga.
Á síðustu árum hefur einstaklega vel tekist til við endurgerð kirkjunnar innandyra sem utan og hefur til dæmis stækkað kirkjuloft opnað á nýja möguleika eins og samstarf kórsins og lúðrasveitarinnar. En enn er verk að vinna, aðeins eitt verkefni eftir.
Athygli mín var vakin á því í tengslum við útför afa að sjálft kirkjuorgelið má muna fífil sinn fegurri. Nú er svo komið að sé óskað eftir því að sálmurinn „Faðir vor“ sé leikinn við athafnir þarf einn kórfélagi að taka að sér það verkefni að sparka í eina orgelpípuna til að bókstaflega berja í gegn réttan tón á tilteknum stað í laginu.
Keflavík á tvær skrautfjaðrir sem seint verða af samfélaginu teknar og það er annars vegar að vera Bítlabær fyrr og nú, og hins vegar öflugur íþróttabær. Tónlistarlífið blómstar ekki af sjálfu sér og rétt eins og í íþróttunum þarf góð aðstaða að vera til staðar. Aðstaða sem laðar að og heldur í fagfólk, aðstaða sem um leið elur upp fagfólk. Við höfum verið afar heppin með organistann okkar, Arnór Vilbergsson, sem er mikil lyftistöng í tónlistarlífinu og langt út fyrir veggi kirkjunnar og viðurkenndur sem slíkur enda er hann handhafi Súlunnar, menningarverðlauna Reykjanesbæjar 2016. Fjölmargt í tónlistarstarfi bæjarins á sér upptök við orgelpípurnar s.s. Með blik í auga á Ljósanótt, Söngvaskáld á Suðurnesjum og margt, margt fleira.
Nú er svo komið að orgel kirkjunnar er verulega veikur hlekkur í blómlegu tónlistarlífi safnaðarins og keðjan er aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn. Fyrirhugað er að gera á orgelinu endurbætur þar sem nýjum röddum verður bætt við og skipt um mikilvæga hluta hljóðfærisins. Þetta mun ekki bara gefa því aukinn hljóm heldur nýtt líf, auk þess sem ásýnd söngloftsins mun breytast. Áætlaður kostnaður er um 26 milljónir króna en til samanburðar ber að hafa í huga að nýtt hljóðfæri kostar ekki undir 60 milljónum.
Ég vil skora á alla velunnara Keflavíkurkirkju hvar sem þá er að finna; fólk, fyrirtæki og félagasamtök að leggja nú hönd á plóg til að við getum klárað verkefnið. Ekkert er svo smátt að það komi ekki að gagni. Ég vil sérstaklega skora á fermingarárganga sem koma saman til endurfunda með vorinu að hugsa til orgelnefndar kirkjunnar. Kennitala sjóðsins er 680169-5789 og reikningsnúmerið 0121-15-350005. Kannski bara að árgangur okkar sóknarprestsins, við sem litum fyrst dagsins ljós 1978 og fögnum 25 ára fermingarafmæli í vor, ríðum á vaðið?
Með samstilltu átaki og góðum hug tekst þetta hratt og vel, koma svo Keflavík!
Með kærri kveðju,
Guðfinnur Sigurvinsson