Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Sorphirða í Reykjanesbæ
Föstudagur 26. janúar 2024 kl. 08:41

Sorphirða í Reykjanesbæ

Sorphirða í Reykjanesbæ er eitt af þeim málefnum sem hafa verið ofarlega í huga margra íbúa undanfarna mánuði. Lagabreyting varð á sorpflokkun sem tók gildi 1. janúar 2023. Um er að ræða lagabreytingar sem hafa verið kallaðar hringrásarlögin en markmið laganna snýr að því að draga úr myndun úrgangs og stuðla að stækkun hringrásarhagkerfis.

Stærstu breytingarnar fyrir íbúa snúa að meðhöndlun úrgangs við heimili en öll heimili þurfa að flokka pappír, plast, matarleifar og blandaðan úrgang (hann er ekki hægt að endurvinna). Auk þessara fjögurra flokka við heimili þá ber landsmönnum einnig að flokka textíl, gler, málma og spillefni sem hægt er að fara með á grenndarstöðvar og á móttökuplön Kölku.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Áður vorum við íbúar á Suðurnesjum með eina tunnu undir pappír og plast og eina tunnu undir blandaðan úrgang sem tæmdar voru á fjórtán daga fresti. Þegar ný flokkun tók gildi í landinu þá fengum við íbúar eina tunnu undir pappír, eina tunnu undir plast og eru tæmingar á fjögurra vikna fresti í stað tveggja. Svo er ein tvískipt tunna undir blandaðan úrgang og lífrænan úrgang sem er tæmd á tveggja vikna fresti.

Kalka er sameignarfélag í eigu sveitarfélaga á Suðurnesjum sem annast meðhöndlun úrgangs á Suðurnesjum þar á meðal sorphirðu frá heimilum. Sorphirða frá heimilum er boðin út til undirverktaka sem sjá um tæmingar. Terra hefur þjónustað sveitarfélögin á Suðurnesjum undanfarin sex ár, síðan 2018. Eftir útboð á sorphirðu sem lauk 28.09.2023 þá mun Terra áfram sinna losun á blönduðum úrgangi og lífrænum úrgangi sem og tæmingum á grenndarstöðvum. Íslenska gámafélagið sinnir losun á pappír og plasti.

Skv.3. mgr. 23 gr. laga nr. 55/2003 um álögð gjöld af sorphirðu, mega þau ekki vera hærri en kostnaður af rekstri þjónustunnar. Innheimta sorphirðugjalda endurspeglast af raunkostnaði við veitta þjónustu. Til að kostnaðurinn sé eins hógvær og kostur er, þá er hagstæðara að hafa færri tæmingar því ef tæmingum fjölgar þá hækkar kostnaðurinn einnig fyrir okkur íbúa.

Úrvinnslusjóður sér um umsýslu úrvinnslugjalds og ráðstöfun þess. Þegar við flokkum vel og tryggjum gæði endurvinnsluefna hefur það áhrif á tekjur frá Úrvinnslusjóði sem ef vel er flokkað leiðir af sér lægri gjöld fyrir íbúa vegna meðhöndlunar úrgangs, þá getur það einnig verið á hinn bóginn ef illa er flokkað þá koma inn lægri tekjur frá Úrvinnslusjóði, sem þýðir hærri kostnaður fyrir okkur íbúa. Því lakari árangur sem næst við flokkun í sveitarfélaginu því minna fær sveitarfélagið greitt frá Úrvinnslusjóði. Því betri flokkun því hærri eru greiðslur frá Úrvinnslusjóði.

Fyrirtækjum og stofnunum er í sjálfsvald sett hvaðan þau kaupa þjónustu varðandi tæmingar á því sorpi sem fellur til hjá þeim og þau eru einnig bundin þessum lagabreytingum og þurfa að gera ráðstafanir til þess að framfylgja þessum lögum.

Allar breytingar og allt sem er nýtt tekur skiljanlega tíma til að aðlagast og læra á. Það er örugglega eitthvað sem hefði mátt gera betur í undirbúningsferlinu en þessi lög eru í gildi og eftir þeim ber að fara. Svona er flokkunin og sorplosunin, hvernig get ég aðlagað mig og mína flokkun að henni er spurningin sem við þurfum að spyrja okkur að. Núna í desember og sérstaklega í kringum jól- og áramót hafa grenndarstöðvar verið nánast allar smekkfullar þrátt fyrir losanir yfir hátíðarnar sem hefur valdið óánægju hjá íbúum. Augljóst er að bæta þarf tæmingar yfir hátíðirnar og er það til skoðunar hjá Kölku, því það er víst að jólin koma alltaf einu sinni á ári.  Að mínu mati eru grenndarstöðvar of fáar, einingarnar of litlar og opin á þeim of lítil. Það eru fimm grenndarstöðvar í Reykjanesbæ í dag, staðsetningu grenndarstöðva má finna á https://www.kalka.is/is/grenndarstodvar/almennt. Það er í vinnslu að fjölga þeim ásamt breyttu fyrirkomulagi á þeim. Það er á áætlun að þær breytingar verði komnar í gang núna í sumar og verður það vonandi til hagræðingar fyrir íbúa að geta farið á þá grenndarstöð í sínu nærumhverfi með það sem þarf. Ég hvet íbúa til að kynna sér flokkun á https://www.reykjanesbaer.is/is/thjonusta/skipulags-og-byggingarmal/sorphirda þar sem eru mjög greinargóðar upplýsingar um flokkun og hvað fer í hvaða flokk. Hér er einnig tengill inn á leitarvél ef það ef einhver vafi í hvaða flokk eigi að henda https://www.sorpa.is/frodleikur/eitt-flokkunarkerfi-og-sofnum-a-matarleifum/.

Díana Hilmarsdóttir,
bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og íbúi í Reykjanesbæ.