Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Sorg og reiði íbúa
    Brynja Kristjánsdóttir.
  • Sorg og reiði íbúa
  • Sorg og reiði íbúa
    Brynja Kristjánsdóttir.
  • Sorg og reiði íbúa
Miðvikudagur 5. mars 2014 kl. 09:24

Sorg og reiði íbúa

– Brynja Kristjánsdóttir bæjarfulltrúi í Garði skrifar



Mikil sorg og reiði ríkir hjá íbúum Garðs  vegna þeirrar stöðu nú að Garðvangi verði lokað um næstu mánaðamót. Íbúar Garðs sem komnir eru á efri ár, og jafnvel íbúar annarra bæjarfélaga á Suðurnesjum er höfðu hugsað sér að eyða ævikvöldinu á Garðvangi, sjá nú fram á að sú von hefur verið að engu gerð. Ástæðan er yfirgangur og valdníðsla tveggja bæjarfélaga af fjórum í samstarfi um öldrunarmál hér á svæðinu.

Ekki er fyrirsjáanlegt að ný hjúkrunarrými komi til úthlutunar fyrir Suðurnesin næstu árin eins og kom fram á fundi í Velferðarráðuneytinu. Það sama á við um lán úr Framkvæmdasjóði aldraðra þar sem búið er að úthluta fjármunum langt fram í tímann.

Aldrei á þessum mánuðum sem breyting þessi hefur staðið yfir hafa bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar óskað eftir fundi með okkur bæjarfulltrúum Garðs. Einn fundur hefur verið haldinn og það var að okkar ósk. Þar kom skýrt fram af okkar hálfu að við óskuðum eftir að halda 15 hjúkrunarrýmum á Garðvangi og myndum síðan sjálf standa að fjármögnun endurbóta á Garðvangi þar til fjármagn til þess fengist.
Þessi beiðni var ekki virt viðlits eins og ljóst er nú og sýnir okkur að samstarf eða samvinna er ekki að skila okkur því sem hún ætti að gera.

Fyrir bæjarfélagið Garð er það sorgleg staðreynd að með lokun Garðvangs munu um 60 heil eða hlutastörf flytjast úr bæjarfélaginu sem er það sama og ef 600 störf væru flutt úr Reykjanesbæ. Er ekki líklegt að þingmenn og ráðherra á Suðurnesjum létu í sér heyra ef svo yrði?
Fáir hafa haft samband eða lagt okkur lið, sama í hvaða flokki þeir standa. Sorglegast er það þó með samflokksráðherra og þingmenn á Suðurnesjum fyrir utan einn Ásmund Friðriksson.

Starfsfólk Garðvangs hefur verið í erfiðri stöðu í þeirri óvissu sem ríkt hefur undanfarna mánuði vegna þessa og ber að þakka þeim fyrir þann dugnað og þolinmæði sem þau hafa sýnt.
Til okkar, íbúa Garðs, vil ég segja að við gefumst ekki upp þótt á móti blási. Framtíð okkar í öldrunarmálum verður skoðuð ítarlega og vonandi tekst að finna ásættanlega leið fyrir okkur öll til framtíðar.

Brynja Kristjánsdóttir
bæjarfulltrúi í Garði
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024