Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sómi Íslands
Föstudagur 24. maí 2024 kl. 08:48

Sómi Íslands

Forsetakosningarnar snúast ekki um pólitík, ekki um stjórnmálafokka, heldur um „Forseta Íslands“ mikilvægasta embætti lýðveldisins. Forseti Íslands tók við hlutverki danska konungsins í stjórnskipun Íslands fyrir átta áratugum, eftir hundrað ára sjálfstæðisbaráttu. Fólkið velur forsetann. Forsetaembættið skiptir máli. Það er ekkert grín að fíflast með, hvorki lopapeysa né lamb að leika við, harmónikkuspil eða hagsmunaplott. Við mátum frambjóðendur við hlutverkið og treystum á lýðræðið.

Samtal forsetans við þjóðina á alltaf við, bæði í gamni og alvöru, þegar vel gengur, og illa. En fyrst reynir á forsetann þegar á móti blæs. Við munum eftir Covid, hruninu, erum meðvituð um náttúruvá, hamfarir og mögulegar stjórnarkreppur. Við slíkar aðstæður þarf forsetinn að hafa bein í nefinu, ef þannig má segja um forsetann.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Stundum er sagt að forseti Íslands sé sameiningartákn okkar Íslendinga. Það er rétt. En er hann það sameiningarafl, sem við þurfum svo oft á að halda? Þekkir hann stjórnskipun Íslands? Er hann vel heima í pólitíkinni? Þekkir hann fólkið í landinu, þarfir þess og aðstæður? Er hann vel tengdur við leiðtoga annarra landa? Vinaþjóðirnar? Nýtur hann virðingar erlendis og hérlendis. Getum við treyst forsetanum? Er hann sameiningarafl?

Katrín Jakobsdóttir býr yfir ómetanlegri reynslu úr íslenskum stjórnmálum. Það mun koma að góðu gagni, nái hún kjöri, t.d. við erfiðar stjórnarmyndanir og kreppur þó svo embættið sé ekki flokkspólitískt – ekki gleyma því. Nú er það Katrín sjálf sem er í framboði, ekki stjórnmálaflokkur í kosningaham. Það er annað mál.

Við vitum að Katrín er gædd þeim hæfileika að geta hlustað á fólk, sætt ólík sjónarmið. Það höfum við séð. Oft. Hún tekur af skarið þegar mikið liggur við. Hún er skynsöm og afburða greind. Hún mun gæta ýtrustu hagsmuna lands og þjóðar, innan lands sem utan, og verða verðugur fulltrúi Íslands á erlendum vettvangi, nái hún kjöri. Hún nýtur virðingar. Henni er treyst. Það höfum við séð. Oft. Hún mun standa vörð um það sem okkur er mikilvægt; sögu, menninguna og íslenska tungu - þar er hún sterk, með djúpar rætur í þeirri fortíð sem gerir okkur að Íslendingum, - að ég tali nú ekki um það besta sem íslenska þjóðin stendur fyrir: lýðræði, jafnrétti og mannúð. Þar er hún fremst í flokki. Það höfum við líka séð. Oft.

Ung kona spurði: „Hvað höfum við átt marga leiðtoga sem halla aldrei orði um aðra, hefja sig aldrei upp á kostnað annarra, hreykja sér aldrei af eigin afrekum, eru aldrei meiðandi í orðavali og alltaf yfirvegaðir?“ Þannig leiðtogi er Katrín Jakobsdóttir. „Hún talar ekki eftir tilbúnu handriti heldur frá hjartanu og með hjartanu og þannig leiðtoga vil ég sjá á Bessastöðum,“ sagði þessi unga kona og ég tek heilshugar undir. Já, ég mun kjósa Katrínu, færni hennar og einlægni. Hún yrði án efa glæsilegur forseti, „sómi Íslands, sverð þess og skjöldur,“ eins og eitt sinn var sagt um sjálfstæðishetjuna Jón Sigurðsson. Fylkjum liði um Katrínu Jakobsdóttur þann 1. júní í vor.

Skúli Thoroddsen