Aðsent

Söluverðmæti eigna sem aldrei skilaði sér í heimabyggð
Fimmtudagur 23. mars 2017 kl. 12:00

Söluverðmæti eigna sem aldrei skilaði sér í heimabyggð

- Aðsend grein frá Gunnari Þórarinssyni

Varnarliðið hafði haft fast aðsetur hér á Suðurnesjum í rúm 55 ár þegar það fór nær fyrirvaralaust af landi brott í september 2006. Starfsemi í sjávarútvegi hafði verið viðamest á svæðinu og flestir starfað á þeim vettvangi. Hér syðra dró varnarliðið til sín vinnuaflið þar sem laun voru að jafnaði hærri en til dæmis hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þessi framvinda átti meðal annars sinn þátt í því að sjávarútvegsfyrirtækjum fækkaði verulega frá því að veiðikvótakerfið var tekið upp í greininni, sérstaklega í Reykjanesbæ. Varnarliðið var sem sagt orðið stærsti vinnuveitandinn á svæðinu. Þessi óhefðbundni keppinautur um vinnuafl hafði auðvitað sín áhrif á eðlilega uppbyggingu í ýmsum öðrum atvinnugreinum, en á móti kom að margvíslegar þjónustugreinar blómstruðu í kringum Varnarliðið. 

Áfall við brotthvarf
Áhrif þessarar skyndilegu brottfarar voru auðvitað gífurlega neikvæð á sveitarfélögin hér á svæðinu. Fleiri hundruð Íslendinga misstu vinnu sína. Flestir þeirra bjuggu á Suðurnesjum, ekki síst í Reykjanesbæ. Atvinnuleysi á Suðurnesjum varð langmest á landinu í kjölfarið og fór upp í tæp 13% skömmu eftir  bankahrunið árið 2009. Atvinnuástandið hafði því veruleg áhrif á tekjur heimilanna á Suðurnesjum og leiddi til þess að útsvarstekjur sveitarfélaganna minnkuðu mikið. Þar við bættist að sveitarfélögin á Suðurnesjum höfðu á uppgangsárunum fyrir bankahrunið undirbúið íbúðahverfi með tilheyrandi gatnakerfi og annarri innviðauppbyggingu. Hitaveita Suðurnesja hafði einnig lagt lagnir fyrir rafmagn og heitt og kalt vatn. Allt voru þetta fjárfestingar sem skiluðu ekki tekjum eins og gert hafði verið ráð fyrir, hvorki til sveitarfélaganna né Hitaveitunnar. Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar versnaði til muna en hún var slæm fyrir. Fyrir Hitaveituna þýddi þessi staða tekjutap upp á hundruð milljóna króna. 

Public deli
Public deli

Í kjölfar brotthvarfs Varnarliðsins var gerður samningur milli þess og ríkisins um yfirtöku allra eigna Varnarliðsins á varnasvæðinu. Með því hefðu fasteignagjöld allra mannvirkja á varnarsvæðinu átt að renna til Reykjanesbæjar þar sem þau voru á skipulagssvæði sveitarfélagsins. Í kjölfar viðræðna við bæjaryfirvöld voru sett lög um að einungis yrðu greidd fasteignagjöld af þeim eignum sem væru komnar í notkun. Jafnframt var það sameiginlegur skilningur að allar tekjur af sölu eigna á svæðinu rynnu til nýstofnaðs þróunarfélags, Kadeco, sem nýtti þær til uppbyggingar á svæðinu. 

Ásbrúarhverfið
Ásbrúarhverfið ber þess merki að það er hannað og byggt upp sem íbúðarhverfi fyrir hernaðarumsvif að amerískri fyrirmynd. Byggðin er dreifð og gatnakerfið því lengra en vera þyrfti. Þar af leiðandi er snjómokstur, sláttur og önnur umhirða kostnaðarmeiri en í öðrum íbúahverfum. Því er ljóst að laga þarf skipulag að kröfum sem nú eru gerðar til slíkra hverfa í samræmi við þarfir íbúanna. Þannig hefði strax þurft að tengja hverfið með brú yfir Reykjanesbraut eða undirgöngum fyrir gangandi við önnur hverfi í Njarðvík. Göngin eru að vísu komin en Reykjanesbær hefur haft verulegan kostnað af gerð þeirra.
Þó að Reykjanesbæ sé auðvitað bæði ljúft og skylt að annast alla lögbundna þjónustu á varnarsvæðinu, sem fékk nafnið Ásbrú, hefur bæjarfélagið haft verulegan kostnað umfram tekjur af rekstri hverfisins. Sú niðurstaða hefur valdið Reykjanesbæ strembnum búsifjum auk þess sem áður er talið.

Hvað er til ráða?
Frá mínum bæjardyrum séð, þarf ríkisvaldið að fara strax í innviðauppbyggingu á svæðinu. Höfnin í Helguvík þarf fjármuni frá ríkisvaldinu til þeirrar uppbyggingar sem stofnað hefur verið til, með sama hætti og ríkisvaldið hefur af myndarbrag stutt við atvinnuuppbyggingu á Húsavík. Hér má að auki nefna þörfina fyrir stuðning við aðra þjónustu sem höfnin þarf að sinna, svo sem við utanlandsflugið vegna flutnings á fiski og flugvélaeldsneyti. Tvöföldun Reykjanesbrautar er brýn, bæði upp að flugstöð og inn í Hafnarfjörð. Í þá framkvæmd þarf að fara strax. Síðast en ekki síst er ekki ósanngjarnt að ríkið veiti talsverða fjármuni til uppbyggingar á Ásbrúarsvæðinu af því fé sem fengist hefur af sölu eigna á Ásbrú.

Gunnar Þórarinsson
bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ fyrir Frjálst afl