Sóknin og vörnin
Dagný Alda Steinsdóttir skrifar.
Þeir sem standa frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og breytingum vinna sjaldan vinsældakosninguna a.m.k. ekki til skemmri tíma, en með snöggum viðbrögðum, upplýstri og opinni umræðu um framtíðarplanið mun staða Reykjanesbæjar réttast við, það er mín trú. Uppstokkun stjórnsýslunnar og breyting á vinnubrögðum mun kalla á ný tækifæri og framsæknar hugmyndir. En öllum breytingum fylgir andstaða og ósætti og því verður meirihluti bæjarstjórnar að vopna bæjarbúa með nákvæmum og reglulegum upplýsingum. Gagnsæi stjórnsýslunnar spornar gegn vantrausti, en það er einmitt vantraustið sem elur á óöryggi og sundrung.
KPMG skýrslan er okkur bæjarbúum og stjórnendum Reykjanesbæjar vegvísir til betri hagsældar. Með skýrsluna að leiðarljósi er ekki spurning hvort við þurfum að grípa til aðgerða heldur hvenær og hvernig. Á þeirri vegferð þurfum við að snúa bökum saman og sýna samstöðu. Bæjarfundurinn í Stapanum var tímamót okkar bæjarbúa og upphafið að upplýstri umræðu um skuldarstöðu bæjarins sem má vissulega segja að hafi verið áfall. En nú vitum við hver staðan í leiknum er, stór biti að kyngja, við erum mörgum mörkum undir, en varla viljum við tapa leiknum? Það er sannarlega ekki í anda Suðurnesjabúa sem alltaf hafa sótt fast. Hefjum uppbyggingu og snúum þessum leik við!
Mikið annríki hefur einkennt vinnu nýs meirihluta að leita lausna við núverandi stöðu og eðlilega er fyrst ráðist að kostnaði. Það sem einkennir rekstur í öllum fyrirtækjum er að það má alltaf finna aukafitu sem nauðsynlegt er að skera niður með sértækum en sannarlega ekki sársaukalausum aðgerðum. Aðgerðir stjórnar sveitarfélagsins um hækkun skatta og launaskerðingar hefur orsakað mikla reiði og jafnvel undrun fólks en þessar aðgerðir ættu ekki að koma á óvart þar sem þetta er eðlilegur framgangur í erfiðum rekstri. Það hefði verið óskandi að við hefðum getað tekið þessar ákvarðanir fyrr, en það er önnur saga.
Meirihluti bæjarstjórnar hefur verk að vinna og þarf að skila kosningunum til fólksins um bætta fjárhagsstöðu bæjarins, uppstokkun stjórnsýslunnar og skilvirkari upplýsingaferli. Það eru engar sársaukalausar lausnir í þessu máli í boði. Til að slá á verkinn verður meirihlutinn að sjá til þess að veita bæjarbúum greiðari aðgang að upplýsingum og drífa af allar miður skemmtilegar og óumflýjanlegar aðgerðir eins fljótt og auðið er, rífa plásturinn af, svo við getum farið að einbeita okkur að framsýnum verkefnum.
Stjórn bæjarins verður að geta spilað jafngóða sókn sem vörn. Vörnin snýst um að verja bæinn frá því að fara á „bæinn“ og sóknin snýst um að verja grunnstoðir samfélagsins hér í Reykjanesbæ. Vel upplýstur borgari, hornsteinn lýðræðisins, veitir stjórnsýslunni það aðhald sem þarf til að komast aftur í fyrstu deildina.
Gleðilega aðventu,
Dagný Alda Steinsdóttir,
varaformaður Menningarráðs Reykjanesbæjar.