Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Sókn í sátt við umhverfið
Fimmtudagur 26. apríl 2007 kl. 16:07

Sókn í sátt við umhverfið

Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára er að móta þá stefnu sem gilda á um umhverfið okkar. Nýting náttúrunnar og náttúruvernd verða að spila saman að því markmiði að afkoma þjóðarinnar verði tryggð til framtíðar. Suðurkjördæmi er ríkt af náttúrulegum auðlindum og við verðum að nýta þær af skynsemi og gæta þess að náttúruverndarsjónarmið gleymist ekki.

Með aukinni uppbyggingu og ásókn í land þurfum við að svara ýmsum spurningum varðandi landnotkun. Við þurfum að einbeita okkur að því að ganga vel um landið okkar svo við getum stolt skilað því af okkur til næstu kynslóða.

Við skulum gæta okkar á því að umræðan um umhverfismál festist ekki á þeim villigötum sem hún er í dag. Stærsta verkefni okkar í umhverfismálum er að hindra jarðvegsrof. Landgræðsla ríkisins í Gunnarsholti hefur unnið gríðarlega gott starf í gegnum tíðina en við skulum gæta að því að styðja þá starfsemi og efla og Sjálfstæðisflokkurinn mun hér eftir sem hingað til leggja metnað það verk. Þá er Hekluskógarverkefnið mjög áhugavert og kemur til með að skila miklu til framtíðar.

Ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem er rúmir 15 þúsund ferkílómetrar að stærð. Þjóðgarðurinn mun hafa mikil áhrif á eflingu ferðaþjónustu í Suðurkjördæmi

Við megum ekki gleyma því að Ísland er hluti af stærri heild. Þekking okkar og reynsla á sviði umhverfis- og orkumála er eftirsótt. Í þeirri sérþekkingu felast mikil sóknarfæri á sviði rannsókna- og menntamála.

Við Sjálfstæðismenn ætlum að sækja fram í umhverfismálum og nýta til þess okkar sérþekkingu. Íslendingar eru í fararbroddi á heimsvísu hvað varðar notkun endurnýtanlegara orkugjafa. Við getum verið stolt af stöðu okkar í þessum málaflokki á Alþjóðavísu. Hingað líta menn eftir fyrirmyndum – hingað líta menn eftir þekkingu.

Til þess að ná árangri á sviði orkumála, samhliða því að viðhalda öflugu velferðarkerfi, háu menntunarstigi, lágu atvinnuleysi og einum hæstu meðaltekjum sem um getur í heiminum getum við ekki staðið fyrir einhvers konar allsherjarsöðvun og stöðnun í nokkur ár.

Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum er því atkvæði greitt sókn í sátt við náttúruna.

Unnur Brá Konráðsdóttir
5. sæti framboðslista Sjálfstæðisflokksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024